Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 16:32:09 (2763)

1998-12-19 16:32:09# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[16:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt mergurinn málsins að ég vísaði til þess í máli mínu hvort það bæri að lesa saman 1. málsl. 8. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. 2. gr., hvort lesa ætti þetta tvennt saman. Hæstv. ráðherra kemur og segir: Jú, það ber að lesa það saman. En ég taldi að samkomulagið sem hæstv. heilbrrh. hafði forgöngu um að næðist um þetta mál fæli í sér að sú setning sem hún var að vísa til ætti að fara út að sinni. Þýðir það ekki að við erum að sinni, þangað til búið er að fullljúka frv. í janúar, að samþykkja a.m.k. tímabundið grófa skerðingu? Ef svo er, þá held ég að við þurfum að hugsa þetta samkomulag upp á nýtt.

Í annan stað varðandi það sem hæstv. ráðherra segir um nauðsyn þess að ljúka þessu máli núna, þá segi ég í fyrsta lagi að hægt hefði verið að hleypa málinu til nefndar og kalla fram nefndarálit þar sem þingviljinn lægi fyrir. Ráðherrann hefði þá land undir fótum.

Í öðru lagi hefði líka verið fært að fara þá leið að samþykkja lagabreytingu sem fæli í sér styrkingu á reglugerðarheimildinni þar sem sérstaklega væri tekið á frítekjumarkinu. Ég hygg, herra forseti, að það hefði verið langbesta leiðin. En hér er um það að ræða að hæstv. ráðherra vill ná málinu fram og það má svo sem skilja það. Hún er að reyna að efna loforð sem hún hefur gefið öryrkjum. En ég undirstrika það einnig, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefur sagt úr þessum ræðustóli að hún ætli að afnema þetta sem hún sjálf kallaði í ræðu hjá Tryggingastofnun ríkisins mikið ranglæti. Hér er að vísu stigið skref en hæstv. ráðherra sagði að afnema ætti það allt. Auðvitað réttmætt að menn spyrji: Hvenær á að taka síðasta skrefið og öll hin skrefin?