Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 17:08:07 (2770)

1998-12-19 17:08:07# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[17:08]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er farin að halda að hæstv. ráðherra sé ekki læs. Brtt. í frv. mínu, sem er 19. mál í þinginu á þessum vetri, hljóðar á þann veg: ,,Tekjur maka hafa ekki áhrif á tekjutryggingu lífeyrisþega.`` Og það eru elli- og örorkulífeyrisþegar þannig að eitthvað finnst mér ráðherranum skjöplast í almannatryggingunum.

Hæstv. ráðherra talar eins og við gerum okkur ekki grein fyrir því að verið sé að bæta kjör lífeyrisþega með þessu. Það hefur komið fram í allri umræðunni og kom fram í máli mínu. Vissulega er verið að bæta kjörin en það er verið að skerða réttindin. Það er verið að taka mannréttindabrot og setja í lög. Ég get ekki sætt mig við það. Þetta hefur verið í reglugerð og það hefur verið umdeilt þar. Við eigum ekki að setja texta sem lítur út fyrir að vera stjórnarskrárbrot inn í lagatexta. Það er það sem ég er ósátt við og við það erum við auðvitað að brjóta á réttindum og skerða réttindi. En vissulega er verið að bæta kjör, það er verið að bæta kjör um áramótin. Þess vegna sættumst við á að láta meiri hlutann fara með þetta mál, eins og ráðherrann talar um, með flýtimeðferð í gegnum þingið vegna þess að við teljum löngu tímabært að þessi hópur fái einhverja kjarabót. Hann hefur vissulega setið eftir í öllu góðærinu. Þess vegna látum við okkur hafa þetta. En ég sætti mig ekki við að þetta fari inn í lög heldur að það fari í gegn sem reglugerð. Það er álit mitt.