Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 18:32:56 (2777)

1998-12-19 18:32:56# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[18:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin. Hvað varðar stuðning við kvikmyndagerð hérlendis vil ég eingöngu árétta það sem ég sagði áðan að ég er mjög hlynntur því og vil þakka hæstv. ráðherra hans hlut í því máli, eins og það birtist okkur í hádegisfréttum, við íslenska kvikmyndagerð. Það sem ég hins vegar vakti athygli á er að þessi heimildargrein er sumpart dálítið óvenjuleg og undir þeim formerkjum vakti ég sérstaka athygli á því, þó að málið sé mjög gott.

Varðandi hitt atriðið sem ég spurði sérstaklega um, kostnaðinn við einkavæðinguna, þ.e. kostnaðinn við söluna á þessum hlutabréfum, þá er það náttúrlega dálítið umhugsunarefni að ekki séu nokkur tök á því að áætla fyrir þeim kostnaði. Því að ég held ég muni það alveg rétt að í fjáraukalögum hafi það verið orðað þannig að sú breyting hafi nú á orðið --- og hæstv. ráðherra hefur sagt það sjálfur --- að nú er þetta ekki lengur einfaldlega dregið frá söluhagnaði heldur kemur þetta á útgjaldalið. Og því spyr ég: Það hlýtur að vera þannig að menn hafi reynt að áætla kostnaðinn eitthvað við þetta, og undir hvaða lið fjárlaganna er það þá? Ég hef ákveðinn skilning á því að vaflaust getur það verið háð tiltekinni óvissu hver niðurstöðutalan í þeim efnum verður. En ef hins vegar er farið eftir lögum um fjárreiður ríkisins þá ber að reyna að áætla fyrir þessum kostnaði eins og öðrum, því að breytingin hefði orðið sú að menn ,,nettóa`` þetta ekki frá þeim tekjum sem inn koma fyrir seld hlutabréf. Ég held að þessi skilningur minn sé alveg réttur og því spyr ég og árétta spurningu mína, án þess að ég sé að heimta svar upp á punkt og prik, krónur og aura: Hvaða grófu mynd fáum við af þessu og hvar er þennan lið að finna í þeim fjárlögum sem við höndlum hér?