Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 18:37:23 (2780)

1998-12-19 18:37:23# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[18:37]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil í nokkrum orðum greina frá fyrirvara mínum í nál. efh.- og viðskn. um tekjugreiningu fjárlaga, en eins og venja er er þeim hluta fjárlagafrv. vísað til umsagnar efh.- og viðskn. Hér áður fyrr var reyndar öll tekjuöflunin unnin í efh.- og viðskn. en með breyttum lögum um fjárreiður ríkisins hafa vinnubrögð aðeins breyst, þó reyndar ekki í þeim mæli sem lögin raunverulega bjóða upp á.

Fyrst er að segja varðandi þennan þátt fjárlagafrv. að áætlun um breyttar tekjur frv. komu mjög seint fram og gafst ekki gott ráðrúm fyrir nefndina að kanna þær forsendur sem voru lagðar þar til grundvallar.

Breyting á útgjöldum fjárlagafrv. frá 1. til 3. umr. eru einungis 1,7%. Breyting á tekjum frv. frá því að það var lagt fyrst fram eru 2%. Menn sjá af þessu, herra forseti, að ekki eru umtalsverðar breytingar gerðar í meðförum þingsins, á bilinu 1--2%, jafnvel þó að segja megi að í þetta sinn hafi e.t.v. verið meira breytt í fjárlagafrv. heldur en oft áður.

Þetta segir okkur það, herra forseti, að meginafgreiðslan í ríkisfjármálum næsta árs hefur raunverulega verið gerð þegar í meðförum ráðuneytanna og endurspeglast í fjárlagafrv. þegar það er lagt fram á haustin. Frv. var lagt fram með 1,9 milljarða kr. hagnaði en niðurstaðan verður, eins og það verður afgreitt væntanlega frá hinu háa Alþingi, með hagnað eða tekjuafgang upp á 2,5 milljarða. Tekjuaukningin, endurmatið sem gert var milli 2. og 3. umr., er upp á 3,7 milljarða. Meiri hluti fjárln. bætti við 1,8 milljörðum milli 1. og 2. umr. og síðan u.þ.b. 1,4 milljörðum núna milli 2. og 3. umr. Fjárlagafrv. verður því afgreitt með hagnaði, umtalsverðum hagnaði.

Hins vegar eru, herra forseti, ýmis álitaefni í tengslum við þetta fjárlagafrv. Í fyrsta lagi vil ég draga fram hinn mikla viðskiptahalla sem við búum við, hann verður áætlaður 35 milljarðar á þessu ári og 30 milljarðar á hinu næsta, þetta er 65 milljarða viðskiptahalli á tveimur árum. Við höfum aldrei í Íslandssögunni upplifað svona mikinn halla á viðskiptum við útlönd. Það er hægt að skýra sumt af þessu með miklum fjárfestingum, sérstaklega á þessu ári, í orkuframkvæmdum eða í tengslum við orkuver eða iðjuver, en samt sem áður er það ekki nema hluti af skýringunni og þetta hefur verið það atriði sem bæði ég og aðrir hafa gagnrýnt mjög harðlega og haft af því áhyggjur. Sem sagt í fyrsta lagi er veikleikinn viðskiptahalli.

Í öðru lagi eru hér ýmis önnur merki þenslu, sérstaklega sem bent er á í gögnum sem voru til afgreiðslu í tengslum við fjárlagafrv. og það er mikil útlánaaukning. Ég held að Þjóðhagsstofnun hafi orðað það ,,gífurleg útlánaaukning`` sem hefur átt sér stað núna undanfarna mánuði. Benda má á varðandi þetta atriði þá undirliggjandi þenslu sem kraumar í hagkerfinu þó svo að góður vöxtur sé í því, að þá er hægt að tiltaka viðvaranir ýmissa sérfræðinga. Það er nú svo að því miður hlustar hæstv. ríkisstjórn kannski ekki nægjanlega mikið á mig þegar ég er að fara með varnaðarorð, en það eru fleiri sem hægt er að benda á sem hafa af þessu svipaðar áhyggjur, t.d. sérfræðingar OECD sem nýlega skiluðu skýrslu um ástandið hér. Þeir drógu vitaskuld fram marga jákvæða þætti en vöruðu einmitt við því að menn yrðu að gæta sín vel varðandi þá þenslu sem undir liggur í hagkerfinu.

Sömuleiðis má benda á að Seðlabankinn hefur einnig lagt til varnaðarorð í þá umræðu en ekki hefur verið um að ræða viðbrögð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og sér þess engin merki --- og jafnvel þvert á móti --- varðandi þennan lið í því fjárlagafrv. sem nú á að afgreiða. Þetta er annar veikleikinn, þ.e. undirliggjandi þensla sem ekki er brugðist við.

Í þriðja lagi vil ég draga fram mikla skuldasöfnun. Þó að skuldir ríkisins séu að lækka og þó að verið sé að ræða um skuldir ríkisins þá verðum við vitaskuld að líta á hagkerfið í heild. Þar eru áhyggjuefni, t.d. að erlendar skuldir munu aukast á næsta ári sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Erlendar skuldir munu aukast um 12 milljarða á næsta ári. Það er mikið fé, jafnvel þó að fjárfestingar séu þarna að baki þá eru erlendar skuldir okkar og vaxtagreiðslur til útlanda verulegar upphæðir og ég veit að hæstv. fjmrh. er sammála mér um að það væri mjög brýnt markmið bæði til langs og skamms tíma að minnka erlendar skuldir, m.a. til að minnka vaxtagreiðslur til útlanda. Þriðji veikleikinn er skuldasöfnun, bæði erlendar skuldir og til viðbótar skuldaaukning heimilanna, sem hefur átt sér stað í miðri uppsveiflunni. Í stað þess að heimilin væru að greiða niður skuldir sínar er allt annað upp á teningnum, þ.e. heimilin hafa verið að bæta við skuldir sínar. Þetta er áhyggjuefni. Þegar það fer saman við ónógan sparnað í samfélagi okkar, sem tengist líka viðskiptahallanum, þá er hægt að benda á að þrátt fyrir uppsveiflu hér --- og þá vil ég ekki vera að mála hlutina neitt svartari en þeir eru --- þá tel ég samt rétt, herra forseti, að draga þessa hluti fram.

Í fjórða lagi, og það er e.t.v. alvarlegri hlutur og er má segja mat á þeirri stöðu sem er frekar en það sem ég nefndi áðan, sem eru staðreyndir og ekki umdeilanlegar sem slíkar þó svo að menn geti deilt um hversu víðtækar ályktanir menn draga af þeim staðreyndum. Í fjórða lagi hef ég nokkrar efasemdir um aðferðafræði hæstv. ríkisstjórnar hér við 3. umr. hvað varðar hagvaxtarspá. Spáin fyrir árið 1998 var endurmetin. Spáin hafði gert ráð fyrir 5,2% hagvexti en hún var endurmetin núna og lækkuð í 5,1% fyrir þetta ár, enda er þessu ári að ljúka og nokkurn veginn hægt að sjá fyrir hvernig þetta ár verður.

[18:45]

En hvað gerist næsta ár? Þegar fjárlagafrv. var lagt fram, herra forseti, og þjóðhagsáætlun var kynnt var gert ráð fyrir 4,6% hagvexti. Nú er hagvöxturinn endurmetinn við 3. umræðu fjárlaga og þá er hækkað úr 4,6 upp í 5%. Ríkisstjórnin telur að hagvöxtur á næsta ári verði 5%. Nú væri e.t.v. hægt að skilja þetta ef hægt væri að færa fyrir þessu sterk efnahagsleg rök en svo er ekki að mínu mati, herra forseti, vegna þess m.a. að allar ríkisstjórnir í nágrannalöndunum eru að endurmeta einmitt sína hagspá fyrir næsta ár og flestar þeirra færa hagvaxtarspá sína niður. Þetta er vegna ástandsins almennt í heiminum. Þá gerir íslenska ríkisstjórnin þveröfugt. Hún metur efnahagsástandið þannig að hagvöxtur verði meiri en hún áætlaði fyrr í haust.

Nú skulum við hafa í huga, herra forseti, að við erum að tala um miklu meiri hagvöxt en er í nágrannalöndunum. Ef ég man rétt þá er talað um 2% hagvöxt í nágrannalöndunum, en við erum að tala um 5% hér. Vitaskuld væri mjög gott ef við næðum þessum hagvexti. En það eru ekki mjög sterkar forsendur fyrir þessu. Ýmis teikn eru okkur jákvæð og hafa verið jákvæð en ég er smeykur um að þarna sé aðeins verið að seilast of langt. Þetta er fjórða atriðið, veikleikinn, þ.e. hagvaxtarspáin, því að ekki þarf að hafa um það mörg orð að aukning á hagvaxtarspá þýðir vitaskuld umtalsverða aukningu í tekjuspánni, stór hluti af þessum 3,7 milljörðum.

Í fimmta lagi er nauðsynlegt að draga fram að ríkisstjórnin áætlar að selja eignir á næsta ári fyrir 8 milljarða. Við verðum að átta okkur á því, herra forseti, að við seljum ekki eignir tvisvar. Þegar búið er að selja þær þá koma þær að hluta til inn sem tekjur hjá ríkissjóði og þær munu verða sem tekjuaukning hjá ríkissjóði á næsta ári, þ.e. sala eigna upp á 3,7 milljarða. Hagnaðurinn er 2,5 þannig að við sjáum að hagnaðurinn og meira til er allt komið til vegna sölu eigna. Við erum sem sagt að ganga á eigur okkar til að halda rekstrinum yfir núllið. Við getum alveg líkt þessu við heimili sem vill ná endum saman og þar er bílinn seldur til að ná tekjum til að ná endum saman og komast réttum megin við núllið. Þetta er alveg sambærilegt því að ríkið selur ekki eignir sínar nema einu sinni, nákvæmlega eins og heimilið selur ekki sama bílinn nema einu sinni.

Nú er gert ráð fyrir --- og það sýnir hvað það er vafasamt sem hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti fjárln. er að leggja til --- og allt í einu reiknað með að sala eigna gefi 1,3 milljörðum meira í tekjur. Þetta er endurmat milli 2. og 3. umr.

Ég spurði embættismenn fjmrn. og Þjóðhagsstofnunar á fundi í hv. efh.- og viðskn.: Ja, hvað kemur til? Á að selja eitthvað núna í viðbót og hvað er það? Eða er gert ráð fyrir hærri tekjum? Af hverju er það? Ég fékk engin svör. Mér var ekki sagt að það ætti að selja neitt nýtt. Það lá nokkurn veginn fyrir hvaða heimilda ríkisstjórnin er að reyna að afla sér til sölu á næsta ári. Það liggur nokkurn veginn fyrir hvaða eignir við erum að tala um. En það er gert ráð fyrir 1,3 milljörðum í viðbót. E.t.v. eru menn að endurmeta reynsluna af sölu í bönkunum eða verði sem gefur þá meira. Ég veit það ekki. Ég fékk a.m.k. ekki svör við þessari spurningu. Mér finnst hér dálítið verið að skjóta út í loftið til að ná sér í hærri tekjutölu, ekki síst er 8 milljarða kr. sala á eignum ríkisins á einu ári umtalsverð fjárhæð.

Við þetta set ég visst spurningarmerki. Ríkisstjórnin er hins vegar mjög með það á sinni stefnuskrá að selja eignir ríkisins og ekki hefur nú allt verið framkvæmt sem ætlað var og kemur inn á þessu ári, þar á meðal Íslenskir aðalverktakar, ef ég man rétt, þannig að talan verður vafalítið umtalsverð. En mér finnst undirbygging fyrir þessa 8 milljarða kr. sölu og tekjuaukningu þar með upp á 3,7 milljarða, e.t.v. ekki mjög traustvekjandi og fannst að hluti af sölu ríkiseigna á haustdögum færi e.t.v. ekki þannig fram að til eftirbreytni væri. Þetta var fimmta atriðið sem ég vildi draga fram, þ.e. að setja spurningarmerki við sölu eigna.

Sjötta atriðið sem ég vil benda á er áhersla hæstv. ríkisstjórnar. Ég hef skoðað og embættismenn fjmrn. hafa tekið saman breytingar á þróun tekjuskatts fyrirtækja og tekjuskatts einstaklinga sem er athyglisvert. Það kemur í ljós að samkvæmt áætlun fyrir næsta ár mun tekjuskattur fyrirtækjanna í landinu hækka um u.þ.b. 7% og tekjuskattur einstaklinga um 12%. Það er umtalsvert meiri hækkun á tekjuskatti einstaklinga en á tekjuskatti fyrirtækja. Þetta er atriði sem við höfum verið að draga fram, herra forseti, í efnahagsumræðunni, ekki einungis í tengslum við fjárlög heldur almennt, þ.e. að tekjuskattur einstaklinga hefur verið að þyngjast, hefur verið að aukast umtalsvert mikið á síðustu missirum. Hluti af því er vegna tekjuaukningar og skýrist þá af því að fleiri koma inn í hærri skattþrep vegna tekjuaukningar. En samt sem áður eru tekjur ríkisins af þessum tekjustofni, tekjuskatti einstaklinga, umtalsvert meiri --- þær hafa verið það --- umtalsvert meiri en nemur verðlagshækkunum, þrátt fyrir lækkun, vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur verið að lækka tekjuskattinn.

Á sama tíma sjáum við að fyrirtækin eru að leggja tiltölulega lítið til ríkisvaldsins í formi tekjuskatts. Nú er það u.þ.b. 7 milljarðar hjá fyrirtækjum á meðan talan fyrir einstaklinga er yfir 23 milljarðar. Ég vil geta þess að þessar tölur eru á gamla greiðslugrunnsfyrirkomulaginu vegna samanburðar við fyrri ár. Þær gefa samt vísbendingu um hlutföllin þarna á milli. Einstaklingarnir leggja til í tekjuskatti u.þ.b. fjórum sinnum meira en hlutdeild fyrirtækjanna er.

Herra forseti. Ég hef áður bent á að við höfum búið íslenskum fyrirtækjum þægilegra skattaumhverfi en þekkist víðast í Evrópu. Þau greiða hér lægri skatta en víðast hvar og hlutdeild þeirra í tekjuöflun ríkisvaldsins er hér minnst miðað við þau ríki sem ég hef haft til samanburðar hvað þann þátt varðar. Þetta sýnis vitaskuld ákveðna stefnu, ákveðna efnahagsstefnu stjórnvalda sem ég tel ekki vera rétta. Ég tel að það væri allt í lagi í þeirri uppsveiflu sem við höfum búið við undanfarin ár að fyrirtækjaumhverfið legði meira til samneyslunnar en það gerir.

Það liggur fyrir, og ég get fellt það undir þennan lið, að Þjóðhagsstofnun telur ekki líkur á mikilli uppsveiflu á næsta ári líkt og hefur verið á þessu. Það hefur verið óvenjulega mikil uppsveifla á þessu ári. Ég vil ég alls ekki gera lítið úr henni, en dreg samt sérstaklega fram að í henni eru þættir sem þurfa frekari skoðunar við.

Það má benda á að ein af forsendunum fyrir fjárlagafrv. og þjóðhagsspánni er óbreytt verðlag á sjávarafurðum. Það er erfitt að spá um það en ýmsir telja að frekar gæti sigið á ógæfuhliðina hvað þann þátt varðar. Vitaskuld vonum við að þetta verðlag standi. Verðhækkanir á sjávarvörum sem skipta okkur verulegu máli hafa verið mjög miklar undanfarin missiri og verið kannski ein aðalorsökin fyrir þessari góðu hagsveiflu hér, fyrir utan þá auknu einkaneyslu sem hefur reyndar endurspeglast í aukinni skuldasöfnun. Þetta eru nokkrar ástæður. En af ytri ástæðum þá hefur mjög hátt verðlag á sjávarafurðum og mjög lágt olíuverð skýrt mjög stóran hluta af þessari efnahagssveiflu. Ríkisstjórnin vill alltaf þakka sinni efnahagsstjórn þennan árangur allan en það er ekki rétt. Vitaskuld getur hún þakkað sér hluta hans. Ég dreg það ekkert í efa. En ytri aðstæður hins vegar skipta vitaskuld verulega miklu máli.

Að síðustu, herra forseti, langar mig til að benda á varðandi þennan þátt að fyrir 1998 varð skekkjan í áætluninni upp á 10 milljarða um það bil á þessu ári. Það eru vitaskuld skýringar á þessu. Þetta eru umtalsverðir fjármunir, um 6% af fjárlögum. Það er hægt að segja og fullyrða: ,,Það er ekkert að marka þetta. Skekkjumörkin eru svo mikil, óvissumörkin eru svo mikil að þessi hagnaður upp á tvo og hálfan milljarð gæti þess vegna verið gufaður upp um mitt ár.``

Ég vil nú ekki taka svo djúpt í árinni. Ég hef ekki forsendur til að segja neitt um það. Ég get hins vegar bent á að skekkjan eða óvissan á þessu ári leiddi í ljós að menn van\-áætluðu tekjur og gjöld verulega. Ýmislegt bendir til þess að menn hafi betri yfirsýn yfir næsta ár en menn höfðu fyrir ári síðan yfir þetta ár. Ýmislegt í hagkerfinu bendir til þess. Við skulum nú samt hafa í huga þegar við göngum frá fjárlagafrv. að þessar tölur er ekki hægt að taka alveg bókstaflega, en þær gefa samt vísbendingar um niðurstöðu máls. Það verður að segjast samt alveg eins og er að það að skila tekjuafgangi upp á tvo og hálfan milljarð, ef það stæðist nú allt saman, þá er það náttúrlega betri árangur í ríkisfjármálum en menn hafa oft séð. Þó að ég sé nú í stjórnarandstöðu þá vil ég að það komi alveg skýrt fram að ýmislegt hefur breyst til batnaðar í ríkisfjármálum á undanförnum árum, þó svo að áherslur í mjög mikilvægum málaflokkum séu aðrar hjá mér en hjá hæstv. ríkisstjórn. En það er of langt mál að fara yfir í þá sálma.

Herra forseti. Meginatriðið í umfjöllun minni við lokaumræðu fjárlaga er að benda á ýmsar staðreyndir sem menn þyrftu að gaumgæfa betur. Ég er áhyggjufullur og hef sagt það áður í ræðustól á hinu háa Alþingi. Ég er ekki svo bjartsýnn á efnahagsástandið á næsta ári. Ég kvíði svolítið fyrir þessari þenslu sem mér finnst vera í hagkerfinu og óttast að verðbólga gæti aftur farið að láta kræla á sér. Ég vil ekki vera með neinar heimsendaspár hvað það varðar en mér kæmi ekki á óvart þó að við mundum þurfa að glíma við alvarlegan efnahagsvanda eða efnahagsvanda sem gæti orðið alvarlegur þegar kemur fram á næsta haust og fram yfir þarnæstu áramót. Vitaskuld er von mín sú að ytri aðstæður haldi áfram að vera okkur hagstæðar. Í meginatriðum er ég samt þeirrar skoðunar að stefnan hvað varðar útgjöld í ríkisfjármálum og tilteknir þættir í tekjuöfluninni þyrfti að skoða út frá annarri hugmyndafræði, en um það snýst jú pólitíkin að reyna að draga fram mismunandi kosti hvað þá hluti áhrærir.