Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 19:02:05 (2782)

1998-12-19 19:02:05# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[19:02]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans og sérstaklega að við erum með sama áhyggjuefnið, þ.e. viðskiptahallann. Það er alveg rétt að hæstv. fjmrh. hefur oft gert það að umtalsefni og þyrfti að taka á því vandamáli. Hann telur sig vera að gera það að hluta til í þessu fjárlagafrv. Auðvitað getum við haft mismunandi skoðanir á því en við greinum þetta a.m.k. sem vandamál.

Ég var ekki að halda því fram að niðurstaða Þjóðhagsstofnunar væri pöntuð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, ég veit að svo er ekki. En vitaskuld er Þjóðhagsstofnun undir forsrn. og auðvitað er samvinna manna í fjmrn. og Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka og fleiri stöðum við að leggja heildarmat á þessar staðreyndir, líka með tilliti til stefnu ríkisstjórnarinnar um aðrar aðstæður. Þetta mat er alltaf erfitt og ég veit að menn eru alltaf að reyna að leggja eins gott mat á þessa stöðu og hægt er.

Ég dró sérstaklega fram að eins og kannski vill verða í spám, menn geta verið bjartsýnni og svartsýnni eða raunsærri, er þetta allt saman mjög mikið matsatriði. Ég dró sérstaklega fram að við værum að endurmeta til hækkunar þegar aðrir væru að endurmeta til lækkunar og ég sæi ekki alveg hinar skýru, rökréttu forsendur fyrir því. Tekjuspáin er líka alltaf erfið og erfitt að spá fyrir um tekjur og hæstv. ráðherra veit það, eins og tekjur af virðisaukaskatti, jafnvel tekjuskatti, af því að það er mikil óvissa í þessu. Eins og ég nefndi sáum við mismuninn á áætlun og raunveruleika á þessu ári að oft getur skakkað verulega miklu eins og þarna er.

En ég er ekki að gera mönnum upp að búa sér til tölur í þeim efnum, ég er kannski fyrst og fremst að draga fram að ég tel að menn séu að leggja upp með of mikla bjartsýni hvað ýmsa hluti varðar. En ég hugsa að þetta sé samt alveg rétt metið að lokum hjá hæstv. ráðherra að búast má við auknum tekjum af sölu eigna ríkisins miðað við þróun núna í haust. Hvort það verða þessar tölur veit ég ekki en hvað varðar að spá auknum tekjum held ég að sé alveg rétt niðurstaða.