Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 19:39:50 (2786)

1998-12-19 19:39:50# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[19:39]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. ber brigður á það sem stendur í framhaldsnál. að því er varðar virðisaukaskattinn sem minni hlutinn telur ofáætlaðan um allt að 2 milljarða. Nú hef ég ekki legið yfir þessu nál. eða farið ofan í þær forsendur sem minni hlutinn gefur sér í þessu sambandi. Þó vil ég benda á að ég tel að vanmat á innflutningi þurfi ekkert að stangast á við það að tekjur af virðisaukaskatti séu ofáætlaðar vegna þess að það gæti falist í því --- en það væri auðvitað mikil breyting --- að veltan innan lands væri svo miklu minni en hún hafi t.d. verið. Það gæti verið skýringin á því sem minni hlutinn setur hér fram. Ég skal ekki um það segja. En miðað við þá reynslu sem við höfum af virðisaukaskattinum, t.d. innan lands eins og ég kom mikið inn á, og þær sveiflur sem hafa verið á þeim skatti og það niður á við þannig að tekjurnar af innanlandsveltunni hafa verið miklu minni þó þær hafi verið meiri af innflutningnum, þá er það eitthvað sem þarf að skoða og varlegt er að gefa sér það að miklar viðbótartekjur fáist út úr virðisaukaskattinum sem meiri hlutinn gefur sér að séu 400 millj. kr.

Sú staðreynd málsins sem ég var aðallega að draga fram, herra forseti, er hvað það veldur miklum áhyggjum hvað tekjuhlið fjárlaganna er alltaf röng, að við stöndum frammi fyrir því að það sem sett er fram í fjárlögum hvers árs, stenst ekki. Það skeikaði t.d. 9 milljörðum króna hvað tekjurnar voru meiri á þessu ári. Þetta veldur áhyggjum, þ.e. hvað þessi mikilvæga spá um tekjuhlið fjárlaganna stenst illa í fjárlögunum. Það var ég að reyna að draga fram í máli mínu, herra forseti, og einnig það hvað valt er að treysta á virðisaukaskattinn, sérstaklega af veltunni innan lands.