Landmælingar og kortagerð

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 20:37:53 (2804)

1998-12-19 20:37:53# 123. lþ. 47.3 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[20:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Aðeins örstutt, hæstv. forseti. Í rauninni er það ekki rétt orðalag að menn úr öllum flokkum, þingmenn úr öllum flokkum séu reiðubúnir að láta þetta yfir sig ganga. Stjórnarandstaðan hefur mótmælt þessum vinnubrögðum. Okkur hefur verið gerð grein fyrir því að fyrir þessu sé meirihlutavilji á Alþingi, ríkisstjórnin og meiri hlutinn sé staðráðinn í því að keyra þetta í gegnum þingið og í ljósi þeirrar ákvörðunar og þess ásetnings höfum við metið framgang málsins.

Að öðru leyti leyfi ég mér að efast um að það sé heppileg samlíking að tala um dóm Hæstaréttar sem hundsbit og hversu langt við eigum að ganga þá áfram í þeirri samlíkingu treysti ég mér ekki til að gera. En ég vildi að þetta sjónarmið kæmi skýrt fram, að stjórnarandstaðan er andvíg þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að keyra þetta mál fram með þeim hætti sem gert er. Og ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að æskilegra og heppilegra og eðlilegra hefði verið að hlutaðeigandi starfsmenn hefðu komið fyrir þá nefnd sem um þetta fjallar til að gefa álit sitt á málinu og færa fram sín rök og sjónarmið.