Ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 21:02:22 (2813)

1998-12-19 21:02:22# 123. lþ. 47.14 fundur 336. mál: #A ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði# (réttur til styrkja) frv. 143/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[21:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins fáein orð í rauninni til að taka undir orð hv. þm. Svavars Gestssonar, 8. þm. Reykv., að þessi liður hefur komið til skoðunar og umræðu í sérstakri byggðanefnd sem starfar nú. Það er samdóma álit hygg ég allra þeirra sem þar starfa og hafa verið að skoða byggðamálin og byggðavandann sérstaklega að eitt allra brýnasta málið í þeim efnum til að taka á misrétti eða vega upp aðstöðumun, sem sannanlega er mikill, tengdur búsetu, sé að stórauka framlög til að jafna námskostnað eða aðstöðu fólks hvað það varðar að börn afli sér langskólamenntunar.

Það er lauslegt mat þeirra sem hafa farið ofan í saumana á þessum kostnaði, t.d. fyrir framhaldsskólanema sem sækja þurfa nám út fyrir heimabyggð sína og dvelja í heimavist eða leigja sér húsnæði að tvöfalda þyrfti þennan lið hið minnsta frá því sem hann var á síðasta ári. Þó að hér sé vissulega stigið nokkurt skref með ákveðinni raunhækkun og auk þess ákveðinni breikkun á hópnum sem þarna á rétt á stuðningi þá hrekkur það hvergi nærri til þess að mæta þeim kostnaðarmun sem úttekt sýnir að er þarna á ferðinni. Mér er t.d. kunnugt um að vönduð skoðun hefur verið gerð á þessu hvað varðar kostnað nemenda í framhaldsskóla á Norðurlandi vestra og hvað þyrfti að hækka liðinn bara á því svæði til að vega upp þennan mun og er þá, held ég, mjög varfærnislega reynt að slá máli á þennan mun og dreginn frá reikningunum talsverður kostnaður sem auðvitað fylgir framfærslu unglinga í heimahúsum, því það er að sjálfsögðu ekki ókeypis, og með sanngjörnum hætti þannig reynt að átta sig á hver þessi raunverulegi kostnaður er. Það er alveg ljóst að hann er umtalsverður og mælist í hundruðum þúsunda króna fyrir venjulega fjölskyldu og þá geta menn auðvitað séð hverjar aðstæður barnmargra fjölskyldna í afskekktum byggðarlögum eru í þessu sambandi.

Þetta vildi ég nefna og taka undir hér að við sem erum að skoða þetta mál út frá byggðaforsendunum sérstaklega viljum sjá umtalsverða hækkun og helst a.m.k. tvöföldun á þessum lið sem allra fyrst, og er þá aðeins tekið á einum þætti af fjölmörgum sem valda miklum aðstöðumun fólks eftir búsetu. Auk þess er þetta auðvitað grundvallarréttlætismál að aðstaða fólks, mér liggur við að segja til mannréttinda af því tagi eins og þau eru í nútímasamfélagi að fá að nýta hæfileika sína til menntunar og þroska, sem ég vil ekkert síður nálgast sem grundvallarmannréttindamál en jafnréttismál út frá byggðalegu tilliti og er í raun hvort tveggja jafngilt. Hér er því á ferðinni mál sem mikil þörf er á að taka á, herra forseti.