Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 21:07:51 (2816)

1998-12-19 21:07:51# 123. lþ. 47.16 fundur 334. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (innflutningur lifandi sjávardýra) frv. 134/1998, Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[21:07]

Frsm. sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Hv. sjútvn. fékk til meðferðar frv. á þskj. 416 um breytingu á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Nefndin fjallaði um málið og fékk á fund sinn Kristján Skarphéðinsson, Kristínu Haraldsdóttur og Arnór Halldórsson frá sjávarútvegsráðuneyti.

Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði til bráðabirgða um að leitað skuli leyfis sjávarútvegsráðherra til innflutnings á lifandi sjávardýrum verði framlengt til 31. desember 1999.

Nefndin leggur til að bætt verði við frumvarpið einni grein til fyllri skýringar á því hvað teljist vera vinnsluskip samkvæmt lögunum. Samkvæmt núgildandi lagaákvæði er kveðið á um að fiskiskip þar sem aðeins fer fram frysting fisks um borð teljist ekki vinnsluskip án nánari afmörkunar á því hvað falli undir hugtakið frysting fisks. Það er mat nefndarinnar að undir frystingu fisks falli, í skilningi EES-reglna, heilfrysting rækju og frysting á hausskornum fiski og því sé rétt að kveða skýrt á um það í skilgreiningunni á hugtakinu vinnsluskip, þ.e. hvaða skip falli ekki undir hana. Fiskiskip sem slíka vinnslu stunda teljast því ekki vinnsluskip í skilningi laganna.

Jafnframt leggur nefndin til að samræmd sé hugtakanotkun í lögunum þannig að samheitið vinnsluskip sé notað yfir bæði verksmiðjuskip og þau frystiskip sem ekki eru sérstaklega undanskilin flokki vinnsluskipa.

Nefndin mælir með samþykkt málsins með þeim breytingum sem raktar eru á þskj. 562.

Þetta er fyrst og fremst til að tryggja óbreytta framkvæmd á innflutningi heilfrysts fisks frá Rússlandi og heilfrystrar rækju sem veidd er utan fiskveiðilögsögunnar og verður eftir þessa breytingu óbreytt framkvæmd hvað þetta varðar, þó með þeirri breytingu að frá og með 1. apríl nk. verður að landa umræddum fiski í svonefndum landamærastöðvum sem þá eiga að vera tilbúnar. Sérstaklega þarf að huga að því að koma þeim á þar sem samgöngur eru erfiðar og einkum á Vestfjörðum, Þingeyri og á Patreksfirði eða Tálknafirði eftir atvikum, og er við það miðað að þessar landamærastöðvar verði tilbúnar 1. apríl nk., þannig að framkvæmd laganna megi verða hnökralaus.