Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 21:26:26 (2824)

1998-12-19 21:26:26# 123. lþ. 47.20 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[21:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það komu nýjar upplýsingar fram einmitt þegar ég var á leiðinni í ræðustólinn sem kannski væri ástæða til að fá frekari skýringar á, þ.e. hvað mun felast í brtt. meiri hlutans hvað varðar gildistökuákvæði laganna um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. (VE: 1. des.) Ef ég má grípa það sem sagt er hér í frammíkalli, herra forseti, þá er þar lítill munur á því að staðreyndin er sú að það sem menn leggja m.a. mikið upp úr er að þessir hlutir verði komnir í hið nýja fyrirkomulag fyrir næstu sláturtíð því þá byrjar ferli sem dýralæknar eru mjög fléttaðir inn í og ekki síst átti að taka á m.a. með þessum breytingum vegna þess að þá er vinnuálag mest á dýralækna o.s.frv.

Ég vil taka það fram fyrir mitt leyti að ég var ekki stuðningsmaður laganna um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr eins og þau voru hér úr garði gerð og það laut sérstaklega að þeim ákvæðum þeirra sem ekki er deila um að fresta, þ.e. héraðaskipaninni og vaktafyrirkomulaginu. Ég er sammála því atriði að mikilvægt sé að lögin að öðru leyti taki gildi sem fyrst og að frestun á þessum ákvæðum, úr því þau eru að lögum orðin, verði sem skemmst því að núverandi ástand er mjög bagalegt í öllu tilliti vegna þess að málin hanga í lausu lofti, kjaramál dýralækna eru í lausu lofti og það skipulag sem þarna á að reyna að koma á verða að nást samningar um. Það þarf endilega að geta tekið gildi sem fyrst þó að mín vegna mættu breytingar á héraðaskipaninni gjarnan bíða og það lengi, og þær að mörgu leyti misráðnar æfingar sem menn fóru út í í þeim efnum.

Ég skora á meiri hluta efh.- og viðskn. að fara að áliti meiri hluta landbn. og vera ekkert að stíga þar eitthvert hænufet heldur færa gildistökuákvæðin, eins og þar er lagt til, fram á mitt árið eða þar um bil --- ég held ég muni það rétt að þar sé lögð til gildistaka 1. júlí 1999 --- í öllu falli fyrir 1. september, áður en sláturtíð hefst.