Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 21:29:04 (2825)

1998-12-19 21:29:04# 123. lþ. 47.20 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, GÁ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[21:29]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Vegna þess að hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, spurði hvort landbn. og meiri hluti hennar mundi sætta sig við þá niðurstöðu að hv. efh.- og viðskn. hefði álit hennar að engu, þá hefur landbn. ekki komið saman vegna þessa atburðar, en lítur það auðvitað alvarlegum augum að svo skuli gerast. Ég vil segja það hér að ég er sammála hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrími J. Sigfússyni, að það er vont fyrirkomulag þegar svona breytingar hanga lengi yfir og ná ekki fram að ganga. Það skapar óvissu í stétt dýralækna og það skapar líka óvissu á meðal bænda. Svo er það auðvitað hinn hlutinn sem var svo mikilvægur þegar landbn. var að afgreiða þetta mál á síðasta þingi, þ.e. þær kröfur um að þetta væri mikilvægt, ekki síst í krafti hins nýja tíma sem væri fram undan og nýrra krafna sem lægju fyrir um aðskilnað eftirlits og þjónustu á mörgum sviðum í krafti stjórnsýslulaga, samkeppnislaga, jafnvel EES-reglna o.s.frv. En því miður hefur ekki unnist tími til þess að vinna þetta mál þannig að það geti tekið gildi.

Ég er mjög ósáttur við að þetta skuli svo allt í einu flokkað hér undir kjaramál og sýndist mér að efh.- og viðskn. miðaði það við fjárlagaárið. Ég vil ekki blanda mér í kjaradeilur og tel ekki að löggjafinn eigi að gera það, þ.e. að blanda sér í kjaradeilur með því að taka lög úr sambandi. En ég get af ýmsum öðrum ástæðum vel fallist á að þessum hluta laganna verði frestað um sinn. Við teljum að vísu enn mikilvægt að það verði til 1. júlí, en nú hefur hv. 5. þm. Norðurl. v., formaður efh.- og viðskn., viðrað úr ræðustól Alþingis að hann og hans nefnd muni flytja brtt. sem miði við 1. des., ef ég heyrði rétt. Mun ég fyrir mitt leyti láta málið niður falla við það. (SvG: Nú er Bleik brugðið.)