Stimpilgjald

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 21:34:03 (2827)

1998-12-19 21:34:03# 123. lþ. 47.22 fundur 151. mál: #A stimpilgjald# (undanþágur frá gjaldi) frv. 157/1998, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[21:34]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hér er til 3. umr. frv. um stimpilgjald. Við 2. umr. þessa máls varð nokkur umræða um stimpilgjald af húsnæðislánum og það varð samkomulag um að málið kæmi aftur inn í efh.- og viðskn. til sérstakrar skoðunar. Það byggðist á því að menn vildu, eins og hv. formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson, orðaði það við 2. umr., fara betur yfir tiltekinn þátt málsins með það að markmiði að menn stæðu eins eftir hvað varðar þennan tiltekna þátt þegar húsnæðiskerfinu var breytt á sínum tíma.

Í meðförum nefndarinnar fundu menn orðalag á útfærslu í sambandi við þetta mál sem naut stuðnings hv. formanns nefndarinnar, mín og félmrn. Þetta er spurning um útfærslu á þáttum sem ég ætla ekki að fara í langt mál í að reyna að útskýra en þurfa líka skoðunar við almennt við skattalög og fjármálaráðuneytisviðhorf eins og er algengt í breytingum af þessu tagi.

Segja má að staða þessa máls sé þannig að mjög brýnt sé að það liggi ótvírætt fyrir varðandi stimpilgjöld að náttúrlega er best að gera þessi tilteknu lán undanskilin stimpilgjöldum. Þetta tengist samspili stimpilgjalda og vaxtabóta og þaki á vaxtabótum. Þetta er ekki þetta svo mjög einfalda húsnæðislánakerfi sem hér er til umræðu. Þó ekki verði við 3. umr. borin formlega fram brtt. af nefndinni eða hv. formanni nefndarinnar er von til þess að málið fái samt þann farveg að hægt sé að fullyrða að meginatriðið við uppstokkun húsnæðiskerfisins, eins og ætlað var á sínum tíma, að þeir hópar sem hér um ræðir væru ekki að gjalda þess sem tengist þinglýsingu á vaxtabótum og vaxtabótaþaki.

Ég á von á því að hæstv. fjmrh., sem hefur gefið þessu máli góðan gaum, fari yfir það með embættismönnum sínum og geti þá fyrir sitt leyti kveðið skýrar að orði um hvernig unnið yrði að þessu máli í framtíðinni og hvernig það yrði tekið upp ef eitthvað kæmi í ljós sem þyrfti betri athugunar við.