Stimpilgjald

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 22:04:23 (2833)

1998-12-19 22:04:23# 123. lþ. 47.22 fundur 151. mál: #A stimpilgjald# (undanþágur frá gjaldi) frv. 157/1998, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[22:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst þessi umræða eiginlega dálítið furðuleg því hér er verið að ræða um mál sem er ekki þingmál. Þetta atriði sem er verið að tala hér um er ekki hluti af frv. Hér er flutt sáraeinfalt og heldur ómerkilegt frv. En tækifærið er notað til að taka upp mál sem var hér til umræðu í vor og útkljáð á því stigi málsins, eins og málin stóðu þá. Hér var flutt mál af forvera mínum á sínum tíma, í vor, og þá voru þessi mál, svo langt sem þau þá náðu, útkljáð.

Hins vegar vill svo til að ég flyt hérna lítilvægt frv. um stimpilgjöld, um allt aðra hluti. Þetta er eiginlega til marks um það, herra forseti, að málum er hér drepið á dreif, þ.e. þetta litla mál sem ég hef hér flutt hefur ekki verið rætt af hv. þingmönnum í þessari umræðu. Það er verið að tala um allt annað atriði sem að vísu líka lýtur að stimpilgjaldi, lögunum um stimpilgjald. Það er það eina sem er sameiginlegt með þessum umræðum og því frv. sem á að vera hér til umræðu.

Er þingmaðurinn hlynntur frv. eða ekki? Það hefur ekki komið fram. Þingmanninum er alveg nákvæmlega sama um þetta frv., alveg nákvæmlega sama um það þó að hér sé verið að reyna að fá farskip skráð inn í landið á eðlilegum forsendum, eins og þetta mál gengur út á, eða að verið sé að tína til á einn stað í smáhreingerningu þessi undanþágu\-ákvæði sem hafa verið á víð og dreif í lögum að því er varðar stimpilgjöld. Þingmanninum er alveg nákvæmlega sama um það. Hún orðar það ekki.

Hún tekur hér upp allt annan hlut. Ég hef gefið hér ákveðna yfirlýsingu um það mál. Hún stendur. En það er náttúrlega algjörlega óviðunandi, herra forseti, að hér sé verið með hótanir um að ef ekki verði sagt eitthvað meira, ef ekki verði gengið eitthvað lengra í áttina að því sem hv. þm. talar um, þá gerist þetta eða þá gerist hitt.

Það má segja margt um þær umræður um Íbúðalánasjóðinn sem fram fóru hér í vor og alla þá útreikninga sem því máli fylgdu. Ég hef reyndar litið aðeins á það á nýjan leik núna upp á síðkastið út af þessu máli hér. Að vísu var engin sérstök ástæða til þess vegna frv. sem ég flutti hér að gera það, en ég gerði það vegna þess að þingmaðurinn tók þetta atriði upp. Ég held að hægt sé að fullyrða að þetta nýja kerfi muni koma betur út fyrir langsamlega flesta sem verða þarna aðilar að. Alls kyns útreikningar liggja fyrir um það efni sem ég er nú ekki með hér í höndunum og sem ég satt að segja tel ekki að eigi að ræða undir þessu þingmáli. Ég tel það reyndar ekki.

Það er náttúrlega ekki hægt heldur að láta því með öllu ósvarað sem þingmaðurinn heldur fram. Auðvitað verður líka að horfa aðeins út fyrir fyrir eitt ár í þessu. Hér er um að ræða atriði sem taka breytingum og hérna er um að ræða ákveðna greiðslubyrði og ákveðið ferli sem ekki jafnar sig kannski nákvæmlega á einu ári. Stimpilgjaldið er lagt út strax. Síðan gerast hlutir á nokkrum árum með vaxtabótum og þess háttar.

Herra forseti. Ég tel að það sé óeðlilegt að teygja umræðuna um þetta mál sem nú er til umræðu inn á þessar brautir og ég ætla ekki að taka frekari þátt í því. En yfirlýsing mín frá því áðan stendur.