Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 22:46:56 (2839)

1998-12-19 22:46:56# 123. lþ. 47.23 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[22:46]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson hefur oft talað um hversu mikilvægt væri að þingið vandaði sig í öllum vinnubrögðum. Ég held að það verði að teljast vönduð vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnar, ef ríkisstjórnin vill tryggja að allir þættir fjárlagafrv. séu tryggir þegar þeir eru teknir til endanlegrar afgreiðslu. Ekkert annað vakir fyrir með samþykkt frv. en að ganga úr skugga um að meiri hluti sé á Alþingi fyrir því að selja Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, svo tryggt sé að tekjuáætlun fjárlaganna standist. Ef hv. þm. er trúr fyrri málflutningi sínum í þessum efnum, um að það skuli vanda til vinnubragða og þó að einhver fordæmi sé að finna fyrir því að þetta hafi ekki alltaf verið gert, þá má hv. þm. ekki, þegar honum hentar að leggjast í þá leiðu umræðu ef ég má orða það svo, finna því allt til foráttu að ríkisstjórnin ætli að vanda sig og tryggja grundvöll fjárlaganna. Menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér í þessum stóli.