Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 22:51:34 (2842)

1998-12-19 22:51:34# 123. lþ. 47.23 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[22:51]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Vitaskuld er hægt að setja í lög hvernig menn vilji haga sölu á eignum ríkisins. Menn þurfa kannski ekki endilega að setja það í lög en það er hægt. Menn geta látið vilja löggjafans koma fram í nál. með frv. um lögin. Margar leiðir hafa verið farnar í því. Það er líka hægt að láta koma fram, jafnvel í greinargerð með stjfrv. Því er mjög óljóst lýst í þessu frv. Hér gætu komið fram leikreglur, kynntar af ráðherra í umræðu málsins. Það, herra forseti, væru dæmi um hin góðu vinnubrögð sem við köllum eftir. Ekkert slíkt hefur verið gert.

Hæstv. viðskrh. er þekktur fyrir annað en vönduð vinnubrögð á ráðherraferli sínum. Hann veit það ósköp vel og bæði þingheimur og almenningur veit það. Það að ásaka okkur um óvönduð vinnubrögð þegar við viljum ganga vel frá sölu á eigum almennings, eins og við leggjum hér til, ég held, herra forseti, að það lýsi ráðherranum betur en tillögum okkar.