Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 13:10:17 (3040)

1999-01-12 13:10:17# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[13:10]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er enginn ágreiningur af minni hálfu við það sjónarmið sem hér kom fram hjá hæstv. ráðherra. Það er auðvitað alveg ljóst og ég sagði það í ræðu minni að dómur af þeim toga sem við stöndum nú frammi fyrir frá Hæstarétti hefði ólíklega fallið fyrir einum fimm, hvað þá tíu árum síðan svo ekki séu nefnd 15 ár vegna þess að ég held að réttarþróunin og skilningur hafi breyst það mikið á þessum tíma m.a. varðandi grundvallarhugtök eins og jafnræði og réttarheimildir sem tengjast því hugtaki.

Sem betur fer verða mál ekki leyst í eitt skipti fyrir öll. Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra um það, og ég segi sem betur fer, vegna þess að þá værum við komnir í alkulið væntanlega ef svo væri. Aðalatriðið er að tryggja flæði hugmynda og endurnýjun hugmynda og að hugmyndir þeirra sem löggjöf setja séu ekki mjög fjarri þeim hugmyndum sem eru í réttarfarskerfinu eða dómstólakerfinu. Þess vegna held ég að t.d. nefnd eða dómstóll eða hvað við viljum kalla það þar sem um væri að ræða tilnefningar frá Hæstarétti og frá lærðum mönnum í Háskóla Íslands, frá lagadeild Háskóla Íslands sem var dæmið sem ég tók, sem mundi tryggja á vissan hátt að þarna yrði um að ræða flæði hugmynda á milli og menn hefðu það sæmilega tryggt að ekki skapaðist tómarúm eða hindranir á slíkri reynslu, slíku streymi sem æskilegt er og nauðsynlegt er að reyna að tryggja. Í framhaldi af þessu finnst mér það tæknilegt úrlausnarefni hvernig hrundið yrði úr vör mótun tillagna til þess að ná því landi sem við hæstv. ráðherra erum alveg sammála um að þurfi að ná í framhaldi af þessum stóru atburðum.