Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 16:25:48 (3164)

1999-02-02 16:25:48# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[16:25]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Málið verður því miður æ óljósara og vandasamara eftir því sem hæstv. ráðherra kemur oftar í stólinn. Ég heyrði ekki betur en hæstv. ráðherra staðfesti þá óvissu sem tengist þessari línu. Í lok svarsins kemur síðan í ljós að sveitarfélögin hafi áfram skipulagsvald. Þau hafa skipulagsvaldið að því er varðar tillögugerð um aðalskipulag.

Virðulegur forseti. Hér erum við í andsvörum og það er sífellt verið að trufla hæstv. ráðherra sem ég beini máli mínu til. Ég tel að það verði að verja hæstv. ráðherra fyrir ágangi manna meðan andsvör fara fram. Ég tel að hér sé um slíkt grundvallaratriði að ræða að að sjálfsögðu sé ekki hægt að ljúka þessari umræðu án þess að hafa á hreinu hvað um sé að ræða, hvert þetta frv. beinist. Erum við ekki samkvæmt frv. --- það les ég út úr textanum --- að búa til sérstaka stjórnsýslueiningu í samhenginu svæðisskipulag fyrir miðhálendi Íslands, innan ákveðinnar markalínu? Þar hafa sveitarfélögin ekkert um að véla heldur sú nefnd, sem ég vil kalla stofnun, sem hæstv. ráðherra er að setja á fót til að vinna og gera tillögu að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands í framtíðinni. Það er það sem um er að ræða. Fulltrúar sveitarfélaganna koma ekki neitt að við þá svæðisskipulagsgerð. Samkvæmt þessu frv. hafa þeir ekkert slíkt vald. Síðan mega þeir hins vegar gera tillögur um aðalskipulag en það verður að lúta vilja þessarar nýju nefndar, þessarar stofnunar sem hæstv. ráðherra er að koma á fót. Sú stofnun, sem á að móta tillögur um svæðisskipulag miðhálendis Íslands í framtíðinni, mun kosta eitthvað meira en 600 þús.

Virðulegur forseti. Auðvitað hefði ég þurft að ræða margt fleira við hæstv. ráðherra en þetta mál er í slíkri þoku, eins og hæstv. ráðherra túlkar það hér, að við getum ekki lokið 1. umr. án þess að það skýrist.