Fjarvera ráðherra

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 16:31:35 (3166)

1999-02-02 16:31:35# 123. lþ. 57.98 fundur 224#B fjarvera ráðherra# (um fundarstjórn), HG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[16:31]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er auðvitað sjálfgert að umræðu sé frestað þegar hæstv. ráðherra þarf að fara af fundi og er auðvitað mjög miður að þessi umræða skuli ekki fá lyktir í dag því hún er afar þýðingarmikil. Hér hafa komið fram atriði sem þingnefnd þarf auðvitað að fá svör við frá hæstv. ráðherra, skýr svör þannig að ljóst sé á hvaða forsendum framkvæmdarvaldið ber málið fram. Ég geri ekki athugasemdir við þessa frestun.

Það sem fékk mig til að ræða um fundarstjórn, virðulegur forseti, er það að dagskrá þessa fundar er að hluta til uppbyggð þannig að hér eru mörg mál sem eru á verksviði hæstv. umhvrh., ég held ein fimm mál sem sá sem hér talar er 1. flutningsmaður að. Ég hafði sannarlega vonað að hæstv. ráðherra yrði viðstaddur þegar umræða um þau færi fram. Ég hafði ekki gert kröfu um það og geri ekki kröfu um það vegna þess að ég átta mig á að það er oft og tíðum erfitt að koma málum á dagskrá þannig að ráðherra sé alltaf örugglega við. En vegna þess að ráðherrann var sjálfur með mál þá hafði ég reiknað með að hann yrði viðstaddur og ætlaði mér að spyrja hæstv. ráðherra um ákveðna þætti sem snerta þau mál sem ég mæli fyrir síðar á fundinum.

Ég vildi að þetta kæmi fram. Mér finnst vera slæmt að svona skuli hátta til. Ég ætla hins vegar ekki að óska eftir að ég mæli ekki fyrir málunum. Ég met það meira að koma málunum til nefndar en þeim verði frestað en hitt hefði sannarlega verið betra og ég kemst ekki hjá því, virðulegur forseti, að víkja að framkvæmdarvaldinu á sviði umhverfismála í tengslum við nokkur þau atriði sem hér ber við á fundinum síðar í þeim málum sem er á dagskrá. Og þá þykir mér alltaf miður að viðkomandi ráðherra sé ekki til andsvara í sambandi við það.