Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:17:16 (3173)

1999-02-02 17:17:16# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:17]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög athyglisvert að heyra málflutning síðasta hv. þm. sem áður var mjög gagnrýninn á Atlantshafsbandalagið og veru hers í landinu. Gott ef hann tók ekki þátt í Keflavíkurgöngum á dögum kalda stríðsins til að andmæla veru hers í landinu. En nú, þegar kalda stríðinu er lokið að flestra mati, er hv. þm. kominn í allt aðrar stellingar að því er varðar mat á þessu varnarbandalagi, sem áskilur sér og rígheldur í réttinn til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði, og dásamar það og prísar, einnig sem vörn og skjól fyrir minnihlutahópa. Ég ætla ekki að ræða það samhengi út af fyrir sig en allt er það mjög vandasamt og varðar inngrip Atlantshafsbandalagsins í málefni einstakra þjóðríkja, einkum ef slíkar aðgerðir byggja ekki á skýrum samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Þar vitum við að menn hafa teflt á tæpt vað og eru í raun að rífa sig úr því samhengi með því að taka sér sjálfstæðan rétt fram hjá Sameinuðu þjóðunum.

Núna þegar 50 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins nálgast er eitt ágreiningsefnið innan þess, vegna þess að þar ólgar allt undir niðri, spurningin um það sem forusta Bandaríkjanna hefur sett fram að undanförnu, að færa verksvið þessa hernaðarbandalags langt út fyrir það svæði sem það hefur markað sér með þátttökuríkjunum og gera það að eins konar heimslögreglu sem áskilur sér rétt til hernaðaríhlutunar hvar sem er í heiminum. Það er dálítið athyglisvert þegar hv. þm., virðulegur forseti, ræddi um þetta varnarbandalag sem gerði árásir. Það er stundum erfitt að koma heim og saman hugtökunum.