Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:22:12 (3175)

1999-02-02 17:22:12# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:22]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. kom síðast að því atriði sem er hvað harðast deilt um einnig innan Atlantshafsbandalagsins. Þar nægir að vitna til Þýskalands þar sem fram hefur komið, hjá nýjum utanríkisráðherra í Þýskalandi, eindreginn vilji til að breytt verði um grundvallarsamning Atlantshafsbandalagsins varðandi réttinn sem það áskilur sér til að beita kjarnorkuvopnum, ekki sem fælingu heldur að fyrra bragði. Það er, þrátt fyrir þær breytingar sem orðið hafa í heimsmálum, grundvallaratriði hjá þessu hernaðarbandalagi, kjarnorkuhernaðarstefna. Það er ekki von til þess að mál þróist til friðvænlegrar áttar í heiminum meðan þeir sem styrkastir eru í þessum efnum, hernaðarlega og efnahagslega, ríghalda í prinsippin sem þar er um að ræða.

Það mál sem hér er til umræðu, þ.e. tilvist og stefna Atlantshafsbandalagsins, er slíkt stórmál að það er ekki hægt að ræða það nema út frá meginviðhorfum. Þegar fyrir liggur að Bandaríkin eru að þreifa fyrir sér með að nýta þetta tæki, ekki aðeins innan svæðis heldur í víðtæku alþjóðlegu samhengi, til að grípa í eigin nafni inn í með hernaði, fram hjá Sameinuðu þjóðunum, eins og einnig á að reyna að komast upp með, þá eru menn sannarlega staddir á mikilli hættuslóð. Ég held að Íslendingar þurfi í samskiptum við þetta bandalag, bæði á meðan við erum þar aðilar og í sambandi við spurninguna um að losna úr hernaðarbandalögum svo Íslendingar sem vopnlaus þjóð haldi sig frá slíku, að gæta þess hvaða eldur það er sem þarna logar.