Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 14:39:20 (3315)

1999-02-04 14:39:20# 123. lþ. 59.7 fundur 65. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni umhvn. fyrir að taka hér til máls og staðfesta það sem ég lét koma fram að málið hefur ekki fengist afgreitt frá hv. þingnefnd á tveimur fyrri þingum. Ég sé ástæðu til að vekja sérstaka athygli á þessu. Ég er alveg sannfærður um að fjöldi manns í landinu, ég mundi halda meiri hluti fólks, telur nauðsynlegt að ríkisvaldið haldi vöku sinni og gæti þess að almenningur fái þá vernd sem nauðsynleg verður að teljast gegn sívaxandi vandamáli hávaða- og hljóðmengunar sem er staðreynd í okkar samfélagi og fyllsta þörf á því að sveitarfélögin í landinu fái aðhald í þessum efnum frá ríkisvaldinu eins og gert er á öðrum Norðurlöndum. Það er talið brýnt verkefni í Danmörku og Noregi, næstu grannlöndum okkar fyrir utan Færeyjar austan hafsins. Hví skyldi okkur vera vandara um í þeim efnum? Ekki er vandamálið minna hér og hér er ekki gengið harðar fram en svo að leggja til að gerð verði úttekt á vandanum, úttekt á vandamálinu til að við höfum upplýsingar í höndunum til að meta nauðsynleg viðbrögð við þeim hremmingum sem fylgja ágangi gagnvart almenningi í tíma og ótíma með hávaða sem er langt yfir eðlilegum mörkum og oft og tíðum gersamlega þarflaus. Borgararnir eiga að njóta slíkra almannareglna. Þær þarf að setja og þar ber okkur að sýna gott fordæmi, a.m.k. átta okkur á hvert vandamálið sé.