Náttúruvernd

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 14:57:41 (3318)

1999-02-04 14:57:41# 123. lþ. 59.8 fundur 84. mál: #A náttúruvernd# (landslagsvernd) frv., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[14:57]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég efast ekkert um góðan hug hv. þm., Ólafs Arnar Haraldssonar, formanns umhvn., varðandi málið. Hitt stendur eftir að þrátt fyrir þá endurskoðun á lögum um náttúruvernd sem komin er í hendur ríkisstjórnar þá hefur það frv. ekki orðið að lögum í þinginu. Hvað sem líður góðum hug okkar sem í umhvn. sitjum þá blasir við að endurskoðun á mjög veigamiklum þáttum löggjafarinnar um náttúruvernd verður ekki gerð svo vel sé á örfáum dögum. Nú er það innan við mánuður, kannski þrjár vikur í starfsdögum, sem þingið á eftir að starfa og sinna þýðingarmiklum málum. Um endurskoðun á lögum um náttúruvernd þarf auðvitað að verða samráð við aðila utan þings, eins og venja er um þýðingarmikil mál, í formi skoðanaskipta þar sem umsagna yrði leitað.

Mér sýnist því að við stöndum í þeim dapurlegu sporum að kjörtímabilinu ætli að ljúka án þess að bætt sé úr jafnbrýnum málum og hér er um að ræða. Þó heyrist mér á hv. formanni umhvn. að um þau sé samstaða. Málið er dapurlegt og ég er ekki að kenna hv. þm. um þetta. Ráðuneytið hét þessu og því bar að skila hér inn tillögum í þingið í tæka tíð svo unnt væri að ljúka nýrri lagasetningu fyrir lok síðasta árs eins og lögin kveða á um. Þessa stöðu ber að harma. Ég hvet enn og aftur til þess að tekið verði á afmörkuðum þáttum í núgildandi löggjöf með lagabreytingu þar sem samstaða gæti tekist um á grundvelli þessa frv.