Landgræðsla

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 15:41:05 (3322)

1999-02-04 15:41:05# 123. lþ. 59.10 fundur 111. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntur) frv., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[15:41]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má ekki minna vera en við hæstv. ráðherra notum tækifærið tveir saman með hæstv. forseta að skiptast á skoðunum frekar um málið, ekki síst í ljósi þess að við höfum hér uppvaxandi kynslóð ungra Íslendinga á áheyrendapöllum sem eru í heimsókn hjá okkur.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar sem hann hefur veitt. Því miður eru þær staðfesting á því sem áður hefur komið fram að allt of seint gengur í sambandi við úrvinnslu, bæði varðandi lagabætur og nýsmíði í löggjöf og eins varðandi það að móta og festa reglur um það mál sem frv. þetta öðru fremur fjallar um. Ég ætla ekki að vera með nein stóryrði um það. Ég er sannfærður um að það gengur nærri hæstv. ráðherra að geta ekki lokið þessum verkum sem hann hefur ítrekað lýst vilja sínum til að mættu ganga fram. Ég býst við að hann taki það ekkert síður nærri sér en sá sem hér talar hversu seint hefur gengið.

Hér er líka dæmi um það svipað og með lögin um breytingu á náttúruverndarlöggjöfinni að þingið gerir ekki nóg af því að grípa á brýnum málum, þótt frá þingmönnum komi í formi tillagna, til þess að taka við slíku opnum huga og fella það inn í gildandi löggjöf. Menn eru alltaf að bíða eftir stóra vinningnum, alltaf að bíða eftir heildarendurskoðuninni sem er allt saman góðra gjalda vert. En við gerum of lítið af því að breyta lögum og taka á afmörkuðum þáttum sem líklegt er að samstaða geti tekist um ef menn bara leggja í það vinnu. Þess vegna vona ég að þetta frv., með jákvæðum undirtektum hæstv. ráðherra, fái kannski þrátt fyrir allt jákvæða niðurstöðu í landbn. þingsins.