Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 14:38:49 (3506)

1999-02-11 14:38:49# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[14:38]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er dálítið þungur myllusteinn sem þingmenn Framsfl. hafa bundið um háls sér í þessu efni og ég skil ósköp vel að svolítið erfitt sé að bera hann. Þegar verið er að mótmæla því að lagt hafi verið upp með 500 þúsund tonna álbræðslu þá er erfitt að hrekja það. Það var ekki aðeins 500 þúsund tonn sem þar voru framreidd heldur 720 þúsund tonn, sem voru hugmyndir viðræðuaðilans, en fastmælum var bundið að fyrst um sinn yrði ekki miðað við meira en 480 þúsund tonn, en 700 þúsund tonn svara til allrar álbræðslu í Noregi og framleiðslu af þessum toga á að draga inn í örsamfélag á Íslandi. Það er ekki verið að horfa mikið til reynslunnar í nágrannalöndunum. Þegar það síðan bætist við, sem er á allra vitorði sem hafa augun opin, að þetta er viðræðuferli og skoðun mála sem opnar upplýsingar fyrir Norsk Hydro varðandi íslenskan orkubúskap sem þeir kunna að notfæra sér einhvern tíma í framtíðinni ef þeir eiga þá völ á því og eru auðvitað ósköp hressir með það að hér er allt bókhaldið opnað. Gjörið þið svo vel. En hv. þm. reynir auðvitað að bera sig vel að þessu leyti og halda uppi þessu álbræðslumerki, merkinu fyrir þessa álbræðsluhlussu sem þeir framsóknarmenn hafa tekið trú á og settu á svið með hæstv. iðnrh. sínum fyrir tveimur árum þegar öllum ofbauð það sem var verið að gera á vegum ríkisstjórnarinnar og Framsfl. með stóriðjuuppbyggingu við Faxaflóa, þá var þessi hugmynd búin til til þess að hressa við landsliðið fram að kosningum.