Bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 16:09:04 (3776)

1999-02-17 16:09:04# 123. lþ. 68.91 fundur 270#B bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands# (umræður utan dagskrár), Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[16:09]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég hef síst á móti því að menn reyni að útskýra þau lög sem sett hafa verið. Ég tel hins vegar skorta mjög á, sem hefði átt að vera meginviðfangsefni þessa bæklings, að sýna tengsl þeirra þrennra laga sem hér voru afgreidd eftir miklar deilur. Þetta hefur ekki verið gert. Þeim tengslum er drepið á dreif og fléttað inn tilvísunum í frumvörp sem sum hver eru að koma inn í þingið eftir dúk og disk, m.a. í dag, og látið í það skína að ríkisstjórnin muni koma þeim í höfn, sem og umfjöllun um skipulag miðhálendisins, sem tvísýnt er um að ríkisstjórnin tryggi framgang á á sínum starfstíma. Þetta m.a. er gagnrýnisvert.

Umbúnaðurinn þykir mörgum fallegur, t.d. myndin af Snæfellsöræfum sem tekur yfir hálfa aðra síðu, ljómandi falleg mynd. En af hverju fella menn ekki þar inn hugmyndina um Kárahnjúkalón, sem mundi skera í þvert þessa fallegu mynd? Það væri þá upplýsandi öndvert við glansmyndina þarna.

Ég hlýt, virðulegur forseti, að átelja í sambandi við þessi mál að þótt ríkisstjórninni bæri að tryggja endurskoðun náttúruverndarlaga fyrir lok síðasta árs þá mun hún ekki gera það. Hún leggur hér fram frv. á elleftu stundu. Ríkisstjórninni bar að tryggja endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum ekki síðar en á skipulagslögum, sem Alþingi afgreiddi vorið 1997. Þetta eru lagafyrirmæli sem verið er að brjóta.

Um skipulag miðhálendisins höfum við fjallað og í þessu plaggi er rætt um samvinnunefnd um svæðisskipulag, sem umhvrh. flutti frv. um. Það frv. er í mikilli tvísýnu og er einhver torráðnasta gáta sem lögð hefur verið fyrir Alþingi.

Hér er því að mörgu að hyggja, virðulegur forseti. Til þess að koma þessari gagnrýni skilmerkilega á framfæri mun ég nota önnur tækifæri þannig að öllum megi ljóst vera hvað hér er að finna að. Lítilþægni stjórnarþingmanna í þessu máli er hins vegar alveg ótrúleg.