Egilsstaðaflugvöllur sem varaflugvöllur í millilandaflugi

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:20:25 (3785)

1999-02-17 18:20:25# 123. lþ. 68.13 fundur 468. mál: #A Egilsstaðaflugvöllur sem varaflugvöllur í millilandaflugi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:20]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Fyrirspurnin sem ég ber hér fram til hæstv. samgrh. er svohljóðandi:

,,Er þörf á frekari tækjabúnaði og þjónustu við Egilsstaðaflugvöll til að hann standist betur þær kröfur sem gerðar eru til varaflugvallar fyrir millilandaflug yfir vetrarmánuðina? Ef svo er, hvaða úrbætur þarf þá til og hvenær koma þær til framkvæmda?``

Tilefni þessarar fyrirspurnar er erindi sem mér og væntanlega öðrum hv. þingmönnum Austurlandskjördæmis barst í hendur frá starfsmanni við flugvöllinn á Egilsstöðum. Til að skýra málið tel ég rétt að vitna til þessa erindis sem var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Mér þykir rétt og skylt að vekja athygli á því að flugmenn í millilandaflugi eru farnir að draga í efa ágæti Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvallar í millilandaflugi. Ástæðan er sú að þrátt fyrir gott veður hafa brautarskilyrði ítrekað verið þannig að þau eru ónothæf fyrir flugvélar af þeirri stærð sem er í áætlunarflugi til og frá Íslandi. Hálkuvandmálið er viðvarandi hér yfir vetrarmánuðina. Til eru þekktar aðferðir og efni til að lágmarka þessi vandamál en til þessa hefur ekki verið fyrir hendi nægjanlegt fjármagn til að koma upp þeim búnaði hér, þó hefur nokkuð áunnist hér í öðrum tækjakaupum. Það er nauðsynlegt að staldra við og íhuga hvort ekki eigi að gefa það formlega út að Egilsstaðaflugvöllur standist ekki þær kröfur sem verður að gera til varaflugvallar yfir vetrarmánuðina. Fátt er aumkunarverðara en að sjá vanbúna starfsmenn, fulla af áhuga og eldmóði, gera sitt besta við að halda uppi brautarskilyrðum sem naumlega ná að fullnægja þeim kröfum sem gera þarf vegna minni flugvéla í innanlandsflugi.``

Þetta var a-liður þessa erindis og í b-lið segir sendandi:

,,Í apríl 1998 var veðurathugunarmanni sagt upp á Egilsstöðum og síðan hefur ekki komið fullkomin veðurlýsing frá Egilsstöðum, aðeins aflestur af sjálfvirkri veðurstöð. Það er ljóst að þetta getur haft verulega þýðingu, ekki síst í ferðaþjónustu og að þessar upplýsingar verði með eðlilegum hætti og þessu kippt í liðinn nú þegar.`` Undir bréfið skrifar sendandinn, Benedikt Vilhjálmsson.

Nú vil ég ekki leggja mat á það sem hér kemur fram og hef raunar í fyrirspurn minni, eins og hún er orðuð, ekki dregið í efa að Egilsstaðaflugvöllur þjóni áfram sem varaflugvöllur. Þrátt fyrir að hafa fengið nokkrar skýringar frá starfsmönnum í flugrekstrinum og flugmálastjóra, tel ég hins vegar rétt að fá skilmerkileg viðbrögð frá hæstv. ráðherra við efasemdum í nefndu erindi, þannig að ljóst sé að hverju er unnið og hvers megi vænta til að bæta úr því sem á kann að skorta.