Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 13:02:03 (3865)

1999-02-18 13:02:03# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[13:02]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki nema tæpur mánuður, fjórar vikur, þar til þessi eindagi dettur á, 15. mars og mér finnst það heldur bág staða að hæstv. iðnrh., því að sá málaflokkur sem hann fer með sem skiptir mjög verulegu í þessu samhengi, geti ekki greint frá því hver verði niðurstaðan í þessum efnum.

Ábyrgðin sameiginleg. Jú, auðvitað er hér um alþjóðasáttmála að ræða, en framkvæmd hans er háð þjóðríkjunum. Þjóðríkin taka á sig ákveðnar skuldbindingar, hvert og eitt, og þannig þurfa menn að skoða málin. Þess vegna þrengir að Íslendingum eins og öðrum ríkjum. Við getum ekki varpað ábyrgðinni á aðra í þessum efnum. Við eigum heldur ekki að líta svo á að við eigum að taka hér við mengunariðnaði, þungaiðnaði og nýta upp vatnsorkuna, tefla á íslenska náttúru vegna þess að við séum að losa aðra frá ákveðnum þáttum, þ.e. að nota jarðefnaeldsneyti. Þannig er framkvæmd samningsins ekki í reynd. Það sem þarf auðvitað að gerast er að þjóðir heims þurfa að breyta um viðhorf almennt séð, framleiðsluhætti, til að fást við þennan stóra vanda sem þarna er á ferðinni.