Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 15:20:16 (3890)

1999-02-18 15:20:16# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að leggjast í sálfræðina eins og mér fannst að væri verið að bjóða upp á. Ég tel það ekki til undantekninga að vera sammála ágætu fólki í þinginu óháð flokkum þó að greini á í ýmsum efnum.

Aðalatriðið er náttúrlega að búa þannig að þeim stofnunum sem við höfum sett á laggirnar að þær geti í rauninni rækt sitt hlutverk og staðið undir því. Í orðum mínum fólst á engan hátt gagnrýni á þau störf sem unnin eru af umboðsmanni Alþingis heldur ábending um hitt að ég efast um að nógu vel og tryggilga sé að embættinu búið til þess að það geti í rauninni sinnt verkum eins og það vildi gera. Og ég held að ef við ætlumst til að þar eigi allt sviðið að vera undir, eins og mér heyrist á hv. þm., m.a. það sem lýtur að jafnréttissviðinu og þau eru mörg fleiri sem hefur verið vísað til og hugmyndir hafa komið fram um, eins og varðandi málefni aldraðra, þá verðum við í rauninni að skoða aðbúnaðinn og endurskilgreina kannski að einhverju leyti verkefnin.