Skógrækt og skógvernd

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 16:15:50 (3950)

1999-02-19 16:15:50# 123. lþ. 70.12 fundur 483. mál: #A skógrækt og skógvernd# frv., 484. mál: #A landshlutabundin skógræktarverkefni# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[16:15]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við reynum það þessa daga á Alþingi að hæstv. ráðherrar eru einn af öðrum að mæla fyrir stórum lagabálkum og það fylgir sögunni hjá þeim flestum að þeir vænti þess að lögfest verði fyrir lok yfirstandandi þings. Ég held að það hafi ekki verið nein undantekning því ef ég hef heyrt rétt hjá hæstv. landbrh. bar hann einnig fram þá frómu ósk. Nú ætla ég ekkert að spá illa fyrir þeim frv. fyrir fram sem við ræðum nú, en hitt er hæstv. ráðherra væntanlega jafnljóst og hæstv. forseta og þeim sem hér talar að mjög styttist þingtíminn og margt er á dagskrá, mörg mál sem eru í athugun og eru fyrir löngu fram komin. Það þarf mikinn og góðan vilja til þess að lögfesta mál af þeim toga sem hér um ræðir þó að það mæli síst nokkuð á móti því að ná landi með frv. af því tagi sem hér hefur verið mælt fyrir.

Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem gerð er atrenna til endurskoðunar á lögum um skógrækt og skógvernd eða skógræktarlöggjöfina eins og hún er nefnd í daglegu tali frá 1955. Ég held að a.m.k. tvívegis á þessum áratug hafi verið lögð fram frumvörp um endurskoðun þessarar löggjafar en hæstv. ráðherra hefur kannski í fórum sínum yfirlit um það. Ég held að það hafi verið sammerkt þessum atrennum hverju sinni að frumvörpin hafa komið fram síðla á þingi þannig að borin von hafi verið að þau hlytu afgreiðslu og síðan jafnvel ekki fylgt eftir af viðkomandi hæstv. ráðherrum. Ég ætla ekki að fara í neinar söguskýringar hér eða rekja sögur eða ætla hæstv. núverandi landbrh. meira en hann ber ábyrgð á í þessum efnum því ég hef ekki látið athuga þetta. En mér er þetta í fersku minni og ég hef undrast það mjög hvernig staðið hefur verið að málum af landbúnaðarráðherrum liðinnar tíðar varðandi endurskoðun á gildandi lögum um þessi efni. Er það út af fyrir sig nokkurt rannsóknarefni fyrir þá sem vilja fara ofan í vinnubrögðin í Stjórnarráði Íslands, hvernig oftlega er haldið á málum, að frumvörp sem hafa þó verið sýnd á þingi koma kannski ekki fram fyrr en síðla á því næsta og þannig sýnilega enginn raunverulegur áhugi eða skýr vilji að fá fram viðkomandi lagabætur. Ég nefni það því nafni, lagabætur, í von um að það horfi að jafnaði til bóta sem fram er borið.

Virðulegur forseti. Ég vildi jafnframt við 1. umr. þessa máls lýsa eftir frv. til laga sem ég tel í rauninni að ætti að vera á undan löggjöf um endurskoðun löggjafar um skógrækt og skógvernd og skógræktarverkefni, þ.e. endurskoðun laga frá 1965 um gróðurvernd og landgræðslu sem eiga auðvitað að mynda hinn almenna grunn fyrir sértækari lög eins og þau sem hér um ræðir. Það hefur verið kallað eftir endurskoðun þessara laga lengi af þeim sem hér talar og oftlega tekið jákvætt undir af núverandi hæstv. landbrh. og gott ef ekki forverum hæstv. landbrh. að þetta sé sannarlega brýnt verkefni og að það sé að byrja atrenna að núverandi endurskoðun og frumvarpa sé að vænta o.s.frv. En ekki gekk rófan. Og eftir því bíðum við enn að þessi afar brýna endurskoðun löggjafar um gróðurvernd komi inn í þingið og verði unnin og undirbúin af framkvæmdarvaldinu. Ég fullyrði það, virðulegur forseti, að ég hefði reynt að taka mig til fyrir löngu til þess að gera atrennu, meira en einstakar breytingar á þeim lögum sem ég hef lagt fram þing eftir þing, að frekari lagabótum á því sviði jafnbrýnar og þær eru.

Í því sambandi vil ég nefna að það eru ein tvö til þrjú ár síðan hingað upp á landið var fenginn sérfróður maður alla leið frá Ástralíu sem flutti okkur skýra frásögn af ráðstefnu, sem hæstv. landbrh. held ég að hafi staðið fyrir eða tengdist a.m.k., um það hvernig staðið væri að málum þar í landi og ég hélt að þetta væri undirbúningur að meiri háttar atlögu að gróðurverndarlöggjöfinni.

Virðulegur forseti. Ég vil tengja þetta sem ég segi nú við mál þess unga þingmanns sem hér talaði áðan um þessi frv., hv. 15. þm. Reykv., Magnúsar Árna Magnússonar, sem mælti þar svipað og ég hef oftlega að vikið. Ég tek undir mál hans að því leyti að hluti af þessum málum sem varða gróðurríki landsins, undirstöðuþættir þeirra mála eiga auðvitað hvergi annars staðar heima en í umhvrn. Ég vil hins vegar kannski draga markalínurnar svolítið öðruvísi en fram kom hjá hv. þm. en taka um leið mjög undir mál hans að því leyti að við höfum tapað af gullnu tækifæri sem fólst í þeirri sérkennilegu ákvörðun Framsfl., er mér víst óhætt að segja, að setja sama hv. þingmanninn yfir landbúnaðarmál og umhverfismál. Þar var sannarlega gullið tækifæri sem ekki er víst að komi aftur. Ég get tæplega óskað eftir því að slíkt tækifæri komi aftur vegna þess að þetta var svo sérstakt og illa til fundið að fara að ætla sama manninum að standa í uppgjöri í þessum tveimur málaflokkum og eiga það við sjálfan sig uppi í Stjórnarráði hvað sé hvers og hvers sé hvað í þessum málum. En það hefur í rauninni verið opið verkefni frá því að umhvrn. var sett á laggirnar 1990 að ganga frá verkaskiptingu í þessum málaflokki eða málaflokkum, greina þar á milli. Það var um algera bráðabirgðaráðstöfun að ræða 1990 þegar ráðuneytið var sett á fót og búin til sú samtenging þessara mála sem enn gildir og ekkert hefur verið breytt. Það er sem sagt mjög eðlilegt að víkja að þessu máli í tengslum við þau frv. sem við ræðum hér. Auðvitað breytum við þessu ekki hér og nú en jafnbrýnt er það.

Þá vil ég nefna það sem ég hef raunar klifað á oftsinnis úr þessum ræðustól. Ég tel að gróðurvernd almennt, þar með talin skógvernd ásamt jarðvegsvernd, eigi hvergi annars staðar heima en í umhvrn. Þar ætti fyrir löngu að vera komin á fót stofnun sem mætti heita gróðurvernd ríkisins eða gróðurverndin eins og Hollustuvernd og Náttúruvernd þar sem væri fyrir komið meginþáttum stjórnsýslu á þessu sviði og rannsóknum á þessu sviði og eftirlit á þessu sviði með gróðri landsins og jarðvegi sem er undirstaða gróðursins má segja. Þá hefðu verið skildir eftir, og þar greinir mig kannski á við það sem fram kom hjá síðasta hv. ræðumanni, ræktunarþættir þessara mála hjá hæstv. landbrh., þ.e. þeir þættir sem eðlilega geta flokkast undir landbúnað, þar á meðal nytjaskógræktarverkefni og þess háttar búskapur sem hluti af starfi bænda. Ég tel að það sé vandalaust að greina rökrænt og skýrt á milli í þessum málum þannig að auðlindin, jarðvegur og gróður almennt, auðlindin og auðlindaverndin á þessu sviði liggi hjá umhvrn. en búskapurinn samkvæmt skilgreindum áætlunum og afmörkun heyri undir viðkomandi fagráðuneyti, þ.e. landbrn. Mér er með öllu fyrirmunað að skilja hvernig það má verða að menn hangi eins og hundar á roði til þess að viðhalda algerlega órökrænni og skaðlegri aðgreiningu þessara mála með því að halda þessu í svo ríkum mæli undir landbrn. og raun ber vitni. Ef vilji væri til þess hjá stjórnmálamönnum væri vandalaust að fá fram skilning t.d. bænda á þessari eðlilegu skiptingu. En í staðinn hefur verið alið á tortryggni þar og reynt að hamla gegn eðlilegum breytingum sem eru afar þýðingarmiklar í viðfangi náttúruverndar og umhverfisverndar í landinu og auðlindaverndar og auðlindanýtingar, virðulegur forseti.

Þá kem ég að frumvörpunum í þrengri merkingu, virðulegur forseti. Ég tel ýmislegt af því sem kemur fram í báðum þessum frv. stefna í jákvæða átt og sjálfsagt að líta á þessi mál út frá því að nýta það sem gott er í þeim. En hitt hefði verið miklu æskilegra að sú stefna sem ég mælti fyrir í ræðu minni áður hefði verið fram komin og endurskoðuð löggjöf um gróðurvernd og landgræðslu með talin.

Ég vil gera fáeinar athugasemdir við frumvörpin og í því sambandi nefna að mér finnst aðgreiningin á þessum tveimur þáttum sem fram koma í heiti frv., skógrækt og skógvernd, ekki vera nógu skýr í sjálfu frv. Hér er um það aðgreinda þætti að ræða og afmarkaða að hægt ætti að vera að koma því betur fyrir þannig að ljóst sé að hér er um ólíka þætti að ræða að því er varðar markmið oft og tíðum, sérstaklega þegar kemur til nytjaskógræktar svonefndrar. Hin almenna skógvernd er í rauninni hluti af almennri gróðurvernd í landinu sem tekur þá til skóga á meðan hitt er virk viðleitni til þess að nýta skóga til fjárhagslegra nytja og arðsemi og rækta þá upp eins og gert er á vegum Skógræktar ríkisins. En þessu hefur lengi verið óheppilega blandað saman og farið í heldur frumstæðan farveg oft og tíðum, t.d. þegar skógræktarfélög í landinu voru nýtt sem eins konar tilraunastofur út frá Skógrækt ríkisins þar sem of mikil áhersla var að mínu mati lögð á innfluttar tegundir á kostnað jafnvel innlendra og aðhlynningar að innlendum gróðri og hirðingar á innlendum skógum eins og birkiskógunum sem hefur verið allt of lítill sómi sýndur á þessari öld þó að margt gott hafi verið aðhafst.

[16:30]

Í 4. gr. frv. um skógrækt og skógvernd er brugðið á það ráð að setja á fót skógráð til fjögurra ára. Það er vafalaust tímabært að koma þannig ráðgjöf að fyrir hæstv. ráðherra hverju sinni um stefnu og markmið og vinna ýmsa undirbúningsvinnu við reglugerðir og annað af þeim toga.

Skógrækt ríkisins gegnir nú afar þýðingarmiklu hlutverki og hefur gert lengi. Það hefur að mér finnst kannski ekki verið hlúð nægilega að þessari ríkisstofnun á undanförnum árum þó að margt hafi þar verið vel gert. Höfuðstöðvar hennar eru nú í því kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir á Alþingi, Austurlandskjördæmi, og var það út af fyrir sig ánægjulegt og þar hófst það verkefni sem fyrst var í bændaskógrækt í stærri stíl sem var verkefni Héraðsskóga sem er undirbúningurinn eða upphafið, má segja, að því sem hér er síðan fjallað um í sérstöku frv. um landshlutabundin skógræktarverkefni.

Virðulegur forseti. Ég ætlaði reyndar áður en ég kem að því frv. aðeins að nefna III. kafla frv. og það sem varðar búfjárbeit í skóglendi utan heimalanda, að banna hana frá 1. nóvember til 1. júní ár hvert. Mér er ekki alveg ljóst, ég hef ekki horft eftir því, hvort hér er um efnisbreytingu að ræða frá gildandi löggjöf en það er tvímælalaust réttmætt að banna slíka beit á þessum tíma og þyrfti kannski að ganga lengra í þeim efnum tengt þeim skógarleifum sem víða er að finna. Það er auðvitað allt of mikið gengið á slíkar lendur með beit. En í 15. gr. frv. er landbúnaðaráðherra heimilað að banna alla þá meðferð eða nýtingu skóglendis sem ætla má að geti rýrt gæði eða umfang þess eða valdið jarðvegsrofi. Hér er víðtæk heimild og ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég held að hæstv. ráðherra þyrfti að taka talsvert til hendinni ef það ætti að nýta þessa heimild eins og efni greinarinnar kveður á um því að þrátt fyrir að dregið hafi mjög úr beit, ég tala nú ekki um að vetrarbeit er að mestu úr sögunni sem betur fer, þá er auðvitað öllum ljóst að allvíða, svo ég segi ekki mjög víða, á landinu eru skógar, náttúrulegir birkiskógar, beittir þannig að hörmung er á að líta fyrir utan það að það kemur í veg fyrir endurgræðslu. Þetta blasir við við alfaraleiðir þannig að hverjum má ljóst vera og hér hefur ekki verið tekið á málum eins og þörf væri á til þess að ná upp náttúrulegum gróðri. Það er vafalaust hægt að hlífa skóglendum þannig við beit ef þau ná að vaxa upp, ná sér á strik, að það megi nýta þau til beitar og jafnvel sem miklu betri beitilönd en áður var, en landið var fyrir og að því þarf auðvitað að stefna.

Svo að endingu, virðulegur forseti, því að tími minn er senn útrunninn, um frv. um landshlutabundin skógræktarverkefni. Ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvort hann geri ráð fyrir í því frv. sem oft hefur verið boðað að kæmi hér inn og sést væntanlega á þessu þingi um mat á umhverfisáhrifum, að þar verði tekið á því sem mjög var rætt í sambandi við lagasetninguna um Suðurlandsskóga, að meiri háttar verkefni á sviði skógræktar og landgræðslu verði matskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ég sakna þess að ég sé hvergi í þessu stóra máli vikið að þessu og hafði vænst þess að það yrði a.m.k. ljóst að hverju yrði stefnt í þeim efnum þó að það geti verið verkefni í tengslum við endurskoðun laganna um mat á umhverfisáhrifum.

Svo allra síðast. Ég kann ekki mjög vel við þá orðnotkun eða þá skiptingu sem mjög hefur verið tíðkuð í seinni tíð í tengslum við skógrækt, að koma með nýjar og nýjar skilgreiningar, mjög gervilegar skilgreiningar. Landgræðsluskógar er eitt af þessu. Fjölnytjaskógar er eitt af þessu. Ég kann ekki að hafa þetta allt saman yfir. Þetta ber á sér gerviblæ að mínu mati oft og tíðum og afar óljóst um hvað er að ræða, enda yfirleitt tilkomið held ég til þess að plægja akurinn fyrir fjárveitingar en ekki vegna þess að undir búi einhver raunveruleg nýbreytni í sambandi við það sem framkvæma skal.