Náttúruvernd

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 17:53:55 (3967)

1999-02-19 17:53:55# 123. lþ. 70.15 fundur 528. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[17:53]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka þá ákvörðun hæstv. forseta að halda umræðu áfram. Af nógu er að taka í þessu máli, frv. til laga um náttúruvernd, sem ég gleðst yfir að skuli nú loks vera komið fram á þinginu, þótt það sé auðvitað allt of seint fram komið, eins og nefnt var af síðasta hv. ræðumanni. Í rauninni stangast þetta á við fyrirmæli um endurskoðun laganna sem samkvæmt ákvæði, ef ég man rétt, til bráðabirgða átti að endurskoða í heild innan tveggja ára frá gildistöku, en gildistakan var 1. jan. 1997. Samkvæmt því bar endurskoðun að vera lokið fyrir lok síðasta árs.

Því miður er það svo að nokkuð algengt er orðið og mikið umhugsunarefni að ekki skuli vera staðið við það af hálfu Stjórnarráðsins að tryggja að slík endurskoðun geti farið fram eins og lög kveða á um. Ég vék að þessu nýlega og hef raunar gert það oft áður þegar um þetta er að ræða. En ef slík ákvæði eru ekki virt, ef ekki er við þau staðið skiptir litlu að vera að setja slíkt inn í lög, slík sólarlagsákvæði eða ákvæði sem varða endurskoðun löggjafar.

Ég þykist vita, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra hafi sér ýmislegt til málsbóta í þessu efni, það hafi verið meira verk o.s.frv. að endurskoða þetta en gert hafði verið ráð fyrir, og sjálfsagt er að hlýða á slíkar skýringar. En þetta er engu að síður tilfinnanlegt og alveg sérstaklega þar sem kjörtímabilinu er að ljúka og sá ráðherra sem ber frv. fram mun ekki hafa aðstæður til að fylgja málinu eftir til lögfestingar og það ber að harma.

Ég tel að þetta frv. sem hér er lagt fram sé á marga lund veruleg bót frá gildandi löggjöf og má þó vissulega að ýmsum atriðum finna, minni háttar atriðum þó sérstaklega, en nokkur atriði sem ég mun nefna í máli mínu tengjast ákvæðum sem hefðu þurft að vera skýrari eða eru ákvæði sem vantar. En það vegur minna í mínum huga en þær réttarbætur sem verið er að lögleiða ef þetta frv. nær fram að ganga með ákvæðum frv.

Það ber sérstaklega að fagna því af hálfu þess sem hér talar að inn í frv. eru felld ákvæði úr tillögum sem sá sem hér talar ásamt fleirum hefur oftsinnis lagt fyrir þingið og liggja fyrir þessu þingi, en þar er um að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, sem er 84. mál þingsins, en það hefur að geyma tillögu um nýjan kafla í náttúruverndarlöggjöf um landslagsvernd og miklu fyllri ákvæði að því er varðar efnistöku. Ég sé það af frv. að þau ákvæði sem þar voru gerðar tillögur um hafa að verulegu leyti verið felld inn í þetta frv. og að langmestu leyti efnislega og ég tel það vissulega mjög góðra gjalda vert, og hefði fyrr mátt vera að undir væri tekið þannig að lögfest yrði. En á því verður því miður enn sýnilega nokkur bið en líkindin á að þetta nái fram að ganga skulum við vona að hafi aukist með framlagningu þessa frv.

Annað mál liggur einnig fyrir þessu þingi í frumvarpsformi, margsinnis flutt hér á Alþingi, mál sem liggur nú fyrir hv. landbn., sem er frv. til laga um breyting á lögum um landgræðslu, og er 111. mál þingsins og varðar innfluttar plöntur. Sá þáttur hefur verið felldur að þessu frv. og nær til innfluttra lífvera sem er 41. gr. þessa frv. Þar er að verulegu leyti komið til móts við þau sjónarmið sem liggja fyrir í umræddu frv., sem ég ásamt fleiri hv. þm. er flutningsmaður að, og varða mjög stórt mál sem margir hafa haft áhyggjur af lengi að farið væri gáleysislega með innflutning og dreifingu á erlendum lífverum sem gætu orðið til tjóns í lífríki landsins. Þetta á alveg sérstaklega við um tegundir sem dreift er með virkum hætti, eins og til landgræðslu, og því löngu tímabært að ákvæði til eftirlits og mats fyrir fram séu lögleidd eins og hér er verið að gera tillögu um.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hafa þó tryggt að fella fyrrnefnd atriði að þessari löggjöf. Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra, þegar við höfum rætt þau frumvörp sem ég hef mælt hér fyrir um þessi efni, að þess mundi sjá stað og ég sé að svo er í þessu frv.

[18:00]

Ég ætla þá að víkja að einstökum köflum frv. nokkrum orðum og fyrst af öllu, virðulegur forseti, að skilgreiningum því að þar er komið að nýmæli sem er í 3. gr. um ósnortið víðerni. Þó það komi nú ekki víða fram í sjálfu frv. að öðru leyti --- ég held ég hafi rekist á hugtakið á einum stað þó --- þá er það mjög til bóta að það er hér komið inn og liggur fyrir sérstök samþykkt þingsins um það efni, svoleiðis að vonandi reynir í auknum mæli á það að þetta hugtak verði virkt í íslenskri náttúruverndarlöggjöf og í framkvæmd hennar.

Ég vil nefna það að þegar Eiður Guðnason, fyrrverandi ráðherra, setti á fót nefnd til endurskoðunar náttúruverndarlaga, líklega 1992, þá átti ég sæti í þeirri nefnd. Hún var nú harla skammlíf nefndin sú. Hún var afmunstruð af þeim sem við tók og síðan hefur sá sem hér talar ekki komið að endurskoðun eða atrennum að endurskoðun náttúruverndarlöggjafar og kom hvergi að þessu máli þó að ýmsir hv. þingmenn hafi átt hlut að endurskoðun laganna og þess frv. sem hér liggur fyrir. En tillaga mín í þessari nefnd 1992 var einmitt að tekin yrði upp ný skilgreining, nýr þáttur í samhengi friðlýsingar og verndunar lands, þ.e. ósnortið víðerni. Hér er það komið og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hefur lagt þessu máli drjúgt lið á liðnum þingum og fengið undirtektir við málið þannig að þetta nýmæli er komið á fullt skrið inn í samhengi náttúruverndarlöggjafar og er það sannarlega vel.

Varðandi stjórn náttúruverndarmála er út af fyrir sig ekki margt sem telst til nýmæla utan það að horfið er frá því að hafa stjórn yfir Náttúruvernd ríkisins. Það virðist orðin ríkjandi stefna hjá umhvrn. að afmunstra stjórnir, þó að nýlega séu settar til verka, eins og yfir Náttúruvernd ríkisins. Það fór ekki mikið fyrir rökum frá hæstv. ráðherra um þá ráðabreytni, nema svona nánast af því bara, af því að það hafi verið gert annars staðar, eins í Hollustuverndinni, þá er einnig brugðið á það ráð hér. En jafnfast og ákveðið mælti held ég hæstv. ráðherra með því 1996 að innleiða einmitt stjórn yfir Náttúruvernd ríkisins og var það allmjög umdeilt, eins og komið hefur fram í umræðunni.

Það eru ýmis atriði sem koma hér fram varðandi hlutverk Náttúruverndar ríkisins og framkvæmd eftirlits af hennar hálfu sem ég hefði viljað gera athugasemdir við. En þar sem ég á sæti í umhvn. þingsins, ef hún kemur nokkuð að þessu máli nú á meðan þetta þing situr, þá á ég kost á að gera ábendingar um það efni. Ég vil þó benda á 6. gr. og c-liðinn, þar sem vikið er að eftirliti með umferð og umgengni á svæðum í óbyggðum sem einu af hlutverkum Náttúruverndar ríkisins. Mér finnst þetta ákvæði vera harla óljóst. A.m.k. vildi ég fá nánari útlistun á því hvernig Náttúruvernd ríkisins verði gert kleift að rækja þetta hlutverk um umferð og umgengni á svæðum í óbyggðum. Það má vissulega telja æskilegt að Náttúruvernd ríkisins komi að þessu máli en auðvitað ætti það að vera almenn löggæsla líka sem sæi um að náttúruverndarlöggjöfinni væri framfylgt að þessu leyti, þar á meðal umferðarlöggæslan.

Í h-lið undir verkefni Náttúruverndar ríkisins er tilgreind álitsgerð vegna meiri háttar framkvæmda og rekstrar. Það er eitt af hlutverkunum: ,,álitsgerð vegna meiri háttar framkvæmda og rekstrar``. Og það er ekki nánar útlistað hvers konar. Ég man nú ekki hvort þetta er nýmæli, en ég nefni þetta sem dæmi um dálítið óljósa framsetningu í frv.

Um framkvæmd eftirlits vildi ég nefna þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Telji Náttúruvernd ríkisins nauðsynlegt að haldið verði uppi sérstöku eftirliti með framkvæmdum skal gera um það samkomulag við framkvæmdaraðila. Í samkomulaginu skal taka mið af innra eftirliti hans ...``

Þetta er allt saman góðra gjalda vert og vissulega hefur í löggjöf verið ákvæði svipað þessu. Aðallega mun þetta varða opinberar stofnanir og framkvæmdir á vegum opinberra aðila. En ég vil vekja athygli á því að lagaleg staða fyrir slíkt eftirlit er harla veik og vantar nokkuð á skýrar skilgreiningar að þessu leyti, þá ekki síst að því er varðar einkaaðila. Ég hefði því talið þörf á því að ofan í þetta efni væri farið sérstaklega í nefnd, þ.e. hvernig styrkja megi í raun stöðu náttúruverndaraðila að þessu leyti og gera það þá framkvæmdaaðilanum í rauninni skylt. En hér sýnist samningsstaðan vera heldur óljós og kannski of veik.

Um Náttúruverndarráð vil ég segja að það er góðra gjalda vert að fjölga um einn þeim fulltrúum sem kjörnir skulu af náttúruverndarþingi. En þarna hefði mátt ganga lengra og er ég sammála hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur um það efni eins og fleira sem fram kom í hennar máli. Þó að hún hafi átt aðild að þessu þá er greinilegt að hv. þm. hefur ekki komið sínum sjónarmiðum fram að öllu leyti í sambandi við frv. því þá mundi það væntanlega hafa litið talsvert öðruvísi út.

En hitt er auðvitað það sem mestu varðar að fjárhagslegur aðbúnaður að Náttúruverndarráði er í engu samræmi við þau verkefni sem löggjafinn gerir ráð fyrir og enn er gert ráð fyrir í þessu frv. að Náttúruverndarráð hafi með höndum. Þar skortir mikið á, því miður, og er mikil þörf á því að lögbjóða öruggan stuðning fyrir Náttúruverndarráð til að geta rækt hlutverk sitt, a.m.k. að geta ráðið sér starfslið að einhverju lágmarki til þess að sinna verkefnunum. Fór þar í verra frá því sem hæstv. fyrrverandi umhvrh., Össur Skarphéðinsson, sællar minningar lagði til. Þar var þó ætlunin að ráðið hefði stuðning af starfsmanni.

11. greinin þyrfti nokkurrar athugunar við og athugasemda við af minni hálfu. Hún varðar náttúruverndarnefndirnar, virðulegur forseti. Sá kafli hefur verið mikið vandræðabarn í lögum lengi vegna þess hversu óskýrt þetta hefur verið. Ég vænti þess að hér sé betur um búið en áður var. Mestu mun þó skipta að Náttúruvernd ríkisins er farin að taka upp meiri tengsl við náttúruverndarnefndir sveitarfélaga eða héraðsnefnda en áður var og hefur þannig vakið sofandi nefndir til lífsins og er að bjóða fram stuðning við starf þeirra. Ég tel að það þyrfti að breyta ákvæðum sveitarstjórnarlaga til samræmis við það sem hér er verið að leggja til þannig að inn í sveitarstjórnarlöggjöfina verði sett skýr ákvæði um þessar nefndir því að það er tilhneiging hjá sveitarstjórnum að þumbast við og taka ekki allt of hátíðlega ákvæði sem ekki er að finna í sveitarstjórnarlögum að þessu leyti og kunna að vera viss rök fyrir því. En þarna þarf að vera samræmi á milli og það þarf að tryggja stöðu þessara nefnda í sveitarstjórnarkerfinu.

Við vitum það og ég hef hér handa á milli gögn sem sanna að orðið náttúruverndarnefnd er ekki mjög víða uppi haft í nefndum sem eiga að sinna náttúruverndarmálefnum hjá sveitarstjórnum. Í hinum stærri sveitarfélögum ber þetta önnur heiti og þeim er ætlað önnur verkefni.

Mér finnst líka ekki nógu skýrt hvort svo gæti farið að starfandi sé náttúruverndarnefnd í sveitarfélagi en einnig á vegum héraðsnefndar sem viðkomandi sveitarfélag er aðili að. Raunar er það svo að meðferð á héraðsnefndum hefur verið að breytast nokkuð hjá sveitarfélögum. Ég hef nú ekki haft aðstæður til að kanna það nógsamlega. En ég tel að það þurfi að skýra þetta og treysta sem best.

Kaflinn um almannarétt og umgengni hefur verið rýmkaður í ýmsum greinum. Ég fagna því sérstaklega að því er varðar réttindi gangandi manna um land og er það vel, enda óhóflega þrengt að þeim rétti. Ég tek hins vegar eindregið undir þau sjónarmið sem komu fram frá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur varðandi 20. gr. að því er varðar tjöldun. Þar sýnist mér engan veginn nógu skýrt kveðið að orði sérstaklega að því er varðar samtengingu tjalds og bíls sem er orðið svona í hugum margra og flestra Íslendinga heilagt mál, þ.e. að menn tjaldi ofan á bílnum eða bílinn sé hafður fast við tjald, annars sé þetta enginn búskapur. Og síðan koma tjaldvagnar sem eru auðvitað mikið notaðir. Ég held því að þarna sé óvarlega að orði kveðið að þessu leyti og þurfi að skoða þetta mál vel.

Tími minn í fyrri ræðu við umræðuna er senn þrotinn, virðulegur forseti. Ég er ekki kominn langt í frv. og fæ kannski möguleika á því að koma hér við sögu frekar.

Varðandi akstur utan vega þá vil ég vekja athygli á því að mér sýnist ótvírætt að láðst hafi að reikna með því að ráðherra geti sett reglur um umferð vélknúinna tækja á jöklum. Það er hér talað um reglur um umferð á snjó en það er ekki ljóst af orðunum að það nái til jökla. Ég tel að það sé auðvitað sjálfsagt mál að þar hafi ráðherra möguleika á að setja reglur eins og gildir um umferð á snjó. En fagna ber sem sagt fortakslausu ákvæði um að bannað sé að aka vélknúnum ökutækjum utan vega.

Virðulegur forseti. Ég mun nýta tíma minn síðar til þess að fjalla nánar um málið en læt máli mínu lokið að sinni.