Náttúruvernd

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 18:31:35 (3969)

1999-02-19 18:31:35# 123. lþ. 70.15 fundur 528. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[18:31]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég ætla að halda áfram og koma á framfæri nokkrum ábendingum varðandi efni frv. sem ekki var tími til í fyrri ræðu minni. Ég hafði vikið að ákvæðum um umferð, umferðarrétt og um almannarétt, síðast um akstur utan vega, og fagna því að þar skuli bann orðið meginregla en síðan gert ráð fyrir undanþágum.

Gert er ráð fyrir því í 19. gr. að takmarka megi umferð í óbyggðum á vissum svæðum, að: ,,Náttúruvernd ríkisins geti í verndarskyni tímabundið takmarkað umferð eða lokað svæðum í óbyggðum, enda hafi stofnunin að jafnaði gert grein fyrir fyrirhugaðri lokun í skýrslu skv. 2. mgr.`` Síðar kemur fram að skýrslan eigi að koma fram nokkru áður, ég held að það komi fram í skýringum við greinina. Mér finnst þetta kannski dálítið erfitt í framkvæmd og hefði talið að hafa ætti þetta þjálla en þarna er gert ráð fyrir. En ég ætla nú ekki að staldra lengur við það.

Í 32. gr. er ég kominn í IV. kafla, um rekstur náttúruverndarsvæða, þar sem gert er ráð fyrir gjaldtöku, fyrst og fremst fyrir þjónustu. Enn fremur getur rekstraraðili ákveðið gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæði ef spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum. Þetta er dálítið óljóst orðalag og vægast sagt teygjanlegt. Ég er því hræddur um að það geti orðið nokkuð torsótt að taka ákvarðanir á grundvelli þess. Spurningin er hvort hér sé verið að smeygja inn heimild til að taka upp gjald fyrir aðgang að landinu, því að orðalagið, um að hætta sé á slíkum spjöllum, er náttúrlega mjög opið. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort í þessu felist sú hugsun að stunda slíka gjaldtöku sem fyrirbyggjandi aðgerð. Auðvitað er nauðsynlegt að bregðast við ef hætta er á ferðum og í sumum tilvikum skilmerkilegast að gera ráð fyrir heimild til þess að loka slíkum svæðum tímabundið á meðan við er brugðist og eins að takmarka aðganginn.

Ég hef áður vikið að landslagsverndinni, þ.e. hinum nýja V. kafla. Fyrri hluti hans er nýmæli og tekinn eftir þeim tillögum sem ég hef flutt í þinginu ásamt fleiri hv. þingmönnum. Mér sýnist sæmilega um búið, m.a. með því að tengja þetta skipulagsákvæðum, það sem segir í 37. gr. Að vísu er allvíða í þessum kafla og víðar í þessu frv. að finna orðalagið ,,eins og kostur er``, sem er auðvitað ansi teygjanlegt. Ég vek athygli á því að stærð þeirra landslagsþátta sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr., t.d. í b-lið um stöðuvötn og tjarnir, er ferföld að flatarmáli á við það sem ég hafði gert ráð fyrir í frv. sem liggur hér fyrir þinginu. Þar er gert ráð fyrir stærðarmörkunum 250 fermetrar. Í danskri löggjöf minnir mig að stærðin sé 50 fermetrar. Ég jók þarna við, ég breytti frv. sem liggur fyrir þinginum um breytingu á náttúruverndarlögum til þess að koma til móts við sjónarmið, m.a. frá Bændasamtökunum að þessu leyti. Mér sýnist að menn hafi gengið helst til langt með því að færa þetta upp í 1.000 fermetra, varðandi stöðuvötn og tjarnir. Oft eru tjarnir, þótt litlar séu, mjög verðmætar og mikilvægur þáttur í landslagi. Á þetta vildi ég leyfa mér að benda.

Í 41. gr. um innflutning, ræktun og dreifingu lifandi lífvera er svo komist að orði:

,,Sé ekki öðruvísi kveðið á í lögum skal ráðherra veita leyfi fyrir innflutningi, ræktun og dreifingu lifandi lífvera.``

,,Sé ekki öðruvísi kveðið á í lögum skal ráðherra`` ... Ég átta mig ekki á af hverju svo fortakslaust er til orða tekið að þessu leyti. Mér sýnist þetta óvarlega orðað þar sem um er að ræða grein sem einmitt er hugsuð sem takmarkandi, nema ég hafi ekki lesið rétt í málið.

43. gr. er um auglýsingar utan þéttbýlis, og þeirri lagagrein fylgir hálf önnur blaðsíða af skýringum sem kann að vera full þörf á. Og þar er það orðað svo varðandi auglýsingar að heimilt sé að setja upp látlausar auglýsingar um atvinnurekstur, þjónustu eða vörur á þeim stað þar sem slík starfsemi eða framleiðsla fer fram. Það er auðvitað mikilvægt að menn átti sig á hvað felst í ,,á þeim stað``, hvort átt er við lóð viðkomandi eignar eða rekstrar. Ég leyfi mér að benda á það.

44. gr. er gamall kunningi úr gildandi náttúruverndarlöggjöf. Ég segi það til gamans að þetta með ,,skip í fjöru`` sem þarna er, er komið frá Eysteini Jónssyni eins og fleira í löggjöfinni frá 1971. Hann sagði mér að tiltekinn bátur hefði árum saman legið í fjörunni við Teigarhorn nálægt fæðingarstað hins ágæta þingskörungs. Það hafði hann í huga þegar þetta var sett í lög, ,,skip í fjöru``. Nú 28 árum eftir gildistökuna má enn sjá leifar þessa báts í fjörunni þó að lítið sé áberandi. Ég vil tengja þetta því sem segir síðar í lagagreininni að afar mikill misbrestur er á því að sveitarstjórnir framfylgi gildandi lögum að þessu leyti. Þarf ekki annað en að vísa til girðinga og ástands á eyðibýlum víða. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að gerð sé úttekt á ástandi þessara mála og gengið eftir því við sveitarstjórnir eða aðra að taka að sér að framkvæmdina á kostnað réttra aðila.

Efnistökuákvæðin eru til stórfelldra bóta og fylgja að miklu leyti því sem fram er komið í frv. sem ég hef vísað til og er flm. að.

Ég tek undir það sem sagt hefur verið hér varðandi friðlýsingu náttúrumyndana í hafi. Mér sýnist að þar sé allt of skammt gengið og það litla sem hér stendur um þetta efni er háð samþykki sjútvrh. Æskilegt hefði verið að hafa þetta ákvæði mun víðtækara og að náttúruverndarlöggjöfin tæki til hafsbotnsins m.a. og myndana á hafsbotni. Ég hef flutt þáltill. sem gerir ráð fyrir að vernda það svæði. Ég beindi að vísu til sjútvrh. og Hafrannsóknastofnunar að framfylgja þeim þáttum.

Nú, enn er tími þrotinn, virðulegur forseti. Friðlýsingarþátturinn er að mestu leyti óbreyttur frá því sem er í gildandi löggjöf. Ég ætla að spara mér að víkja frekar að því en bendi á að mér finnst of langur tími að gera ráð fyrir að náttúruverndaráætlun komi aðeins fram á fimm ára fresti og einnig að náttúruminjaskrá sé aðeins útgefin fimmta hvert ár. Ég sé enga ástæðu til að láta svo langt líða þar á milli. Ég ætla ekki að fara yfir tímann og læt máli mínu lokið um leið og ég undirstrika gildi þess að fá vandaða löggjöf og nútímalega á þessu mikilvæga málasviði þó að því miður horfi ekki svo að frv. verði lögfest á þessu þingi.