Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 11:51:35 (4128)

1999-02-26 11:51:35# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[11:51]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það frv. til laga sem hér er flutt fjallar um möguleika fyrir Rafmagnsveitur ríkisins til að taka þátt í félögum sem hafa það að megintilgangi að framleiða, flytja, dreifa eða selja orku og auk þess að eiga hlut í félögum til að hagnýta þá sérþekkingu og búnað sem fyrirtækið ræður yfir til rannsóknar- og þróunarstarfa á sviði orkumála og til orkuverkefna erlendis.

Virðulegur forseti. Mér sýnist að hér sé verið að afla lagaheimildar sem getur fallið eðlilega að hlutverki fyrirtækisins og veitt því ákveðna þróunarmöguleika og hagnýtingu á þeirri þekkingu sem þar er að finna og er veruleg. Ég tel að þær takmarkanir sem settar eru í frv. um að hér sé eingöngu um orkusviðið að ræða séu mjög eðlilegar og reyndar nauðsynlegar. Á það bæði við um þátttöku í fyrirtækjum vegna framleiðslu o.s.frv., sem og til rannsóknar- og þróunarstarfa.

Ég tek þetta fram vegna þess að mér finnst að menn hafi kannski verið að fara svolítið út fyrir þetta í öðrum fyrirtækjum, a.m.k. hef ég sett spurningarmerki við það. Ég leyfi mér að nefna bara til umhugsunar, starfsemi Hitaveitu Suðurnesja í þessu sambandi. Það er auðvitað ágætt og arðbært fyrirtæki sem gegnir mjög mikilvægu hlutverki. En þegar verið var að breyta lögum um Hitaveitu Suðurnesja, ég held að það hafi verið lagabreyting, þá var þar aukið við heimild sem ég varaði við, ef ég man rétt, að yrði ekki farið of langt með í sambandi við ráðstöfun fjár út úr fyrirtækinu til annarra verkefna. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér og í samhengi við þetta frv. er sú að þar sem um er að ræða fyrirtæki sem fá sérleyfi til dreifingar og sölu á afurð eins og raforku eða heitu vatni, einkaleyfi á ákveðnu svæði, þá er auðvitað út frá neytendavernd og neytendasjónarmiðum nauðsynlegt að gæta þess að þar sé ekki verið að taka óþarfa áhættu, þar sé ekki verið að nýta fjármagn inn í allt annað samhengi og hugsanlega áhætturekstur. Sjónarmiðið sem þarna liggur að baki er neytendavernd, öryggi fyrir neytendur sem skipta við eitt fyrirtæki sem hefur sérleyfi.

Nú veit ég að þetta hefur verið stundað í einhverjum mæli hjá fleiri fyrirtækjum sem selja heitt vatn til húshitunar. Ég hef a.m.k. ástæðu til að ætla að svo sé. Þó að ég nefni Hitaveitu Suðurnesja sem dæmi þá einskorðast þetta ekkert við það fyrirtæki. Ég er ekki að gagnrýna út af fyrir sig neitt sem snýr að fyrirtækinu að öðru leyti en því að menn þurfa að hafa ákveðnar viðmiðanir og aðgæslu. Ég held að t.d. í Bandaríkjum Norður-Ameríku sé mjög hart gengið eftir sjónarmiðum af þessu tagi. Ég held að við þurfum að hafa það í huga þegar heimildir eru veittar að neytendur séu ekki settir í áhættu og að arður sé eftir atvikum notaður innan orkusviðsins því að það segir sig sjálft að ef hann er tekinn út úr fyrirtæki til annarra hluta, þá nýtist hann ekki á sama hátt, t.d. til að lækka orkuverð sem ætti auðvitað að vera meginviðmiðunin.

Í sambandi við þetta mál er eðlilegt að menn víki að öðrum þáttum. Ég ætla ekki að teygja mig langt í þeim efnum, aðeins að ítreka það meginatriði og keppikefli að tryggja sem jafnast verð á orku til notenda í landinu. Okkur hefur miðað allt of skammt í þeim efnum. Það hefur ekki tekist pólitísk sátt t.d. um að jafna á húshitunarmarkaðnum, annars vegar milli þeirra sem njóta jarðhitans og hins vegar þeirra sem þurfa að kaupa raforku til húshitunar, þar sem allt of mikill verðmunur er uppi. Ég minnist þess að við vorum með þá hugmynd í deiglu um 1980 -- þá varð mikil verðsprenging á orku í sambandi við olíukreppu --- að leggja jöfnunargjald á hitaorkuna líka, ekki aðeins á raforkusöluna eins og var lengi í gildi til þess að afla fjár til jöfnunar, heldur á hitaorkuna. En ekki reyndist pólitískur vilji til þess á þeim tíma og það var mjög miður að mínu mati að það var ekki gert. Það er ótvírætt í mínum huga að mismunurinn á orkukostnaði heimila, á milli kaldra og heitra svæða sérstaklega, er stór þáttur í þeirri búseturöskun sem á sér stað og fólksflutningi frá rafhitunarsvæðunum yfir til svæða þar sem þessi hluti af framfærslunni er langtum ódýrari. Þar hafa menn ekki náð að jafna sem skyldi. Munurinn á raforkuverðinu einu og sér er ekki stórfelldur. En það er um gífurlega mikinn mun er að ræða á húshitunarkostnaðinum, annars vegar með rafhitun og hins vegar með hagkvæmum hitaveitum.

Menn kannast vafalaust við söguna af landsbyggðarmanninum sem flutti í fjölbýli í Reykjavík og í pósthólfinu hjá honum lenti reikningurinn fyrir upphitun á allri blokkinni. Hann brá við og greiddi reikninginn en síðan kom það í ljós að hann var að greiða fyrir blokkina en ekki fyrir eigin íbúð eða sinn hlut í orkukostnaði. Þetta er ekki eins ýkjukennt eins og menn gætu haldið. Þarna er um að ræða allt að þrefaldan mun, tvöfaldan til þrefaldan mun a.m.k. miðað við staðalaðstæður og síðan fer það eftir aðstæðum að öðru leyti, ástandi húsnæðis m.a., hversu raunmunurinn er mikill hjá hverjum og einum íbúðareiganda eða leigjanda sem þarf að greiða orkureikninginn.

Rafmagnsveitur ríkisins sinna markaði sem er mjög örðugur. Þar er um að ræða verulegan félagslegan kostnað sem Rafmagnsveiturnar hafa ekki nema að hluta til fengið metinn og greiddan þannig að þeirra aðstæður sem fyrirtækis eru allt aðrar og erfiðari heldur en t.d. Landsvirkjunar og annarra fyrirtækja sem vel standa, þar á meðal Hitaveitu Suðurnesja. Það skortir, tel ég vera, skilning á því að leggja beri Rafmagnsveitunum til fjármagn til móts við þann erfiða markað sem þær sinna og að litið sé á það sem samfélagslegan kostnað.

Margt fleira mætti um þetta segja, virðulegur forseti. Ég tel að hér sé jákvætt mál á ferðinni. Þó hugsanlega megi gera það betra við athugun í nefnd þá styð ég meginhugmyndina að baki þessu þingmáli.