Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 12:07:31 (4132)

1999-02-26 12:07:31# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[12:07]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra um að sjálfsagt er að líta á þessa möguleika sem varða þessa megindrætti um að aðskilja í rauninni framleiðsluna frá flutningnum. Margt er í því samhengi sem auðvitað þarf athugunar við, þ.e. hvernig því verði skynsamlega fyrir komið. Það sem mestu varðar í mínum huga er að það loki ekki á eða geri ekki erfiðara fyrir en ella að jafna raforkuverðið á innanlandsmarkaðnum hjá notendum þar sem við þurfum að sækja á en ekki að tapa stöðunni. Það er grundvallaratriði sem þarf að hafa í huga.

Ég held að það sé líka spennandi að skoða hvernig ætti að taka umhverfissjónarmið inn í breytt fyrirkomulag og spurninguna í sambandi við framleiðsluna um að taka inn nýja þætti sem grunnþætti m.a. við mat á verðlagningu. Það er náttúrlega ekkert ráðrúm til þess að reifa það frekar hér. Við höfum kannski ekki sömu aðstæður og aðrir sem framleiða raforku með jarðefnaeldsneyti eða á slíkan hátt að taka upp græna skatta með beinum hætti í sambandi við raforkuframleiðsluna, og þó. Það sem þarf að gerast hér er að við förum að meta til verðs það sem fer til spillis við beislun okkar eigin orkulinda og taka það skýrt með inn í kostnaðinn. Það er eitt af því sem tengist umhverfissviðinu og þessum nýju viðhorfum.