Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:13:57 (4201)

1999-03-01 16:13:57# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:13]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það verður að segja að nú fór í verra. Það fór heldur betur í verra ef marka má þær umræður sem hér fara fram. Hv. þm. Hjálmar Árnason er að uppgötva það nú við lok kjörtímabils hvaða ríkisstjórn hann styður. Það er eins og það komi hv. þm. alveg í opna skjöldu að hann hefur verið að styðja ríkisstjórn sem hefur einkavæðingu framarlega á sinni stefnuskrá og lætur hana ganga fyrir. Hvernig getur það gerst að hv. þm. er að uppgötva það fyrst núna? En ég tek undir með hv. þm. að þetta er auðvitað alveg dæmalaust sem hér er að gerast.

[16:15]

Auðvitað er dæmalaust að ekki skuli vera neinn fótur undir prógrammi því sem hv. þm. hefur fengið að vinna að með leyfi hæstv. iðnrh. til að milda út á við stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Hún vinnur að því hörðum höndum að binda lungann úr íslenskri vatnsorku í málmbræðslum en hv. þm. fær að kynna að til standi að skoða hvort breyta eigi Íslandi í vetnissamfélag. Á sama tíma er orkan sem til þess þarf bundin í málmbræðslur. Það er efst á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Hefur hv. þm. ekki tekið eftir þessu?

Ég er ansi hræddur um, virðulegur forseti, að þetta sé heldur seint séð hjá hv. þm. Það er ljóst að skjóls mun ekki að leita hjá ráðherrum eða öðrum í ríkisstjórninni til að styðja þá heimsögulegu möguleika sem hv. þm. var að lýsa. Ég tek eindregið undir orð hans. Auðvitað verður ekki komið af stað þróun í þessum málum ef ekki er stuðningur við að tryggja að hér geti farið fram rannsóknir og þróunarstarfsemi. Halda menn að einkaframtakið á Íslandi tryggi það? Ó nei.