Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 13:08:02 (4435)

1999-03-08 13:08:02# 123. lþ. 80.25 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv. +, HG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[13:08]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Vegna mismælis forseta um að ég sé þingmaður Norðurl. e. vil ég benda á að enn hefur Norðausturkjördæminu mikla ekki verið komið á eins og stefnt er að samkvæmt tillögum kjördæmanefndarinnar sem mótaði hugmyndir um kjördæmamörk og stærð kjördæma.

Ég ætla að nefna örfá atriði við 3. umr. þessa mikilsverða máls. Fyrst af öllu vil ég nefna kjarnann í frv. Hér er verið að skapa rammann fyrir kjördæmaskipan í landinu þó að mörk séu ekki fastsett. Með þeirri bindingu sem felst í ákvæðum þessa frv., um að kjördæmi skuli vera fæst sex en flest sjö og að í hverju kjördæmi skuli vera minnst sex kjördæmissæti, eru menn að setja ramma sem bindur mjög möguleikana á að breyta mörkum kjördæma og stærð þeirra, frá því sem hugmyndir hafa legið fyrir um. Þó að þarna hafi orðið viss breyting á til minnkunar er hún að mínu mati engan veginn fullnægjandi.

Ég tel að í ljósi þess sem hér stendur til að lögfesta verði mjög stór kjördæmi á landsbyggðinni, alveg sérstaklega á fámennustu svæðum. Þar hugsa ég sérstaklega til austurhluta landsins. Þegar það er njörvað niður, að í hverju kjördæmi skuli vera minnst sex kjördæmissæti þá eru menn að setja ákveðinn ramma utan um Austurkjördæmið, sem ég hefði kosið að nefna svo, en ekki Norðausturkjördæmi sem verður óhjákvæmilega afar víðlent og hugmyndir standa til að taki til hálfs Íslands. Þetta tel ég mikla hugsanavillu, að líta ekki meira til landfræðilegra staðhátta í sambandi við rammann í stjórnarskrá, að ekki skuli mögulegt að stilla landfræðilegri stærð kjördæma í hóf. Ég hef áður látið það koma fram við þessa umræðu, virðulegur forseti, að ég hefði verið reiðubúinn að gera allt aðrar breytingar á stjórnskipan landsins en hér er lagt upp með. Ég hefði viljað koma á millistjórnstigi í landinu, sem festi í sessi umdæmi sem hægt væri að miðla til verkefnum frá ríkinu í fjölda málaflokka. Það er umræða sem hefur lengi verið í gangi en hefur ekki notið fullnægjandi stuðnings. Hefði slíkt fengist hefði ég talið koma vel til greina að Ísland allt væri eitt kjördæmi í kosningum til löggjafarþingsins, til Alþingis. Þá hefði verið úr sögunni hin mikla togstreita sem verið hefur í gangi, oft á miklum misskilningi byggð, um vægi atkvæða á bak við þingmenn á hinum einstöku svæðum. En það horfir ekki svo að tekið verði tillit til þessara sjónarmiða. Ég mun taka afstöðu til þessa frv. í ljósi þess að ég er mjög andvígur þeirri grunnhugsun sem hér er á ferðinni.

Ég hef nefnt það áður og ítreka að ég tel að sú hugmynd að skipta Reykjavíkurborg upp í tvö kjördæmi sé illa til fundin, fjarstæðukennd og gangi gegn allri eðlilegri hugsun í sambandi við stjórnsýslu hér í Reykjavíkurborg. Borgin er ekki það víðfeðmt svæði að menn muni um að fara um það og ná þar sambandi við kjósendur. Það hefur verið nefnt sem röksemd fyrir því að skipta höfuðborginni upp í tvö kjördæmi að hér sé erfitt að halda sambandi við fólk. Fyrir þann sem gegnt hefur störfum um áratugi sem þingmaður á víðlendu svæði eins og Austurlandi finnst mér röksemdir af þessum toga missa marks og mér líst ekki á að það verði niðurstaðan, að höfuðborginni Reykjavík verði skipt upp með þessum hætti.

Í sambandi við hin stjórnstigin, þ.e. hugmyndina um fylki eða millistjórnstig milli ríkis og sveitarfélaga, er það að segja að mér líst ekki á þá þróunina varðandi sveitarfélögin og stærð þeirra. Menn hafa horfið að því að reyna að sameinast um stærri verkefni með því að stækka sveitarfélögin. Það hefur sumpart gengið verulega út fyrir það sem ég tel skynsamlegt þegar um sveitarfélög er að ræða. Eðli sveitarfélaga á að vera að þeir sem þar eru kosnir fulltrúar séu nálægt umbjóðendum sínum og hafi staðarþekkingu. Þegar talað er um að láta sveitarfélag spanna svæði sem til skamms tíma og jafnvel enn í dag eru kjördæmi, þá eru menn að fara yfir eðlileg mörk. Vegna þessara sjónarmiða hefðu menn átt að leita leiða til að stofna til millistjórnstigs í landinu, lofa sveitarfélögunum að þróast eftir aðstæðum og ekki hvetja þau, þótt með óbeinum hætti væri, til að spanna svo víðlend svæði að samkenndin rofni. Í þetta stefnir þó, því miður.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð til viðbótar. Þó vildi ég aðeins nefna að menn þyrftu ekki að flýta sér svo mjög með þær stjórnarskrárbreytingar sem hér eru á döfinni. Miðað við að fyrst yrði kosið árið 2003, eftir þeim breytingum sem hér er verið að lögfesta og væntanlegum breytingum á kjördæmaskipan, vil ég nefna að unnt væri að að innleiða viðkomandi breytingar sem samstaða tækist um á árinu 2003 eða mjög nálægt því. Þá yrði efnt til tvennra kosninga til að ná fram stjórnarskrárbreytingu. Ef sá kostur hefði orðið fyrir valinu, hagræðið af því er í mínum huga það, hefði gefist kostur á að ræða þessi mál betur en gert hefur verið, fá meiri snertingu við fólkið í landinu í sambandi við þessar breytingar.

Ég tek eftir því að það hefur í rauninni verið allsendis ónóg kynning og umræða um þessar breytingar víða um land. Ég þykist vita að menn séu komnir nálægt leiðarenda í þessu máli og til lítils sé að nefna hugmyndir af þessum toga. Ég vil þó gera það hér. Þá hefðu menn svigrúm til þess að fresta stjórnarskrárbreytingunni í þrjú ár, alveg fram undir lok næsta kjörtímabils, efna til tvennra kosninga árið 2003 og kjósa þá í seinni kosningum eftir þeim breytingum sem ákveðnar hefðu verið í stjórnarskrá og kosningalögum.

Ég vil engu spá, virðulegur forseti, um hversu lengi sú skipan sem hér er verið að setja ramma um muni halda. Ég óttast að þau nýmæli sem hér eru innleidd með þessum geysilega stóru kjördæmum, landfræðilega, og uppskiptingu höfuðborgarinnar, sem ekki spannar yfir stórt svæði, séu óskynsamlegar og ekki það sem við þurfum öðru fremur á að halda.