Raforkuver

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 12:38:19 (4494)

1999-03-09 12:38:19# 123. lþ. 82.17 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv. 48/1999, Frsm. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[12:38]

Frsm. minni hluta iðnn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þm. þarf svo mjög á leiðsögn að halda er ljúft að verða við því. Niðurstaða minni hluta iðnn. er að þingmálinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur svo takmarkaða trú á ríkisstjórninni að hann tekur ekki undir þá tillögu en ég held að það ætti samt að verða niðurstaðan, einnig hjá hv. þm.

Spurningum um hvort Alþingi Íslendinga þurfi að blanda sér inn í stefnu í orkumálum eður ei eða hafa áhyggjur af opinberum fyrirtækjum á orkusviðinu svara ég játandi. Við þurfum að hafa áhyggjur af þeirri stefnu og þeim rekstri og það er ekkert bundið við Ísland, það er ekkert sérstakt fyrir Ísland. Það er hægt að leita til þjóðþinga hvarvetna, orkumál og orkustefna eru alls staðar viðfangsefni þjóðþinga. Hvað um kjarnorkuiðnaðinn? Hvað um tilskipun Evrópusambandsins í raforkumálum sem eru í pípunum á leiðinni hingað inn í Alþingi? Er það ekki íhlutun hins opinbera um orkumál? Að vísu er verið að innleiða stefnu sem ég hygg að hv. þm. sé að hluta til þóknanlegri en sú sem hér er rekin og ég held að hv. þm. ætti að lesa sér til um þann fagnaðarboðskap sem þar er á leiðinni.