Raforkuver

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 12:44:54 (4498)

1999-03-09 12:44:54# 123. lþ. 82.17 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv. 48/1999, Frsm. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[12:44]

Frsm. minni hluta iðnn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get auðvitað ekki ráðið í hug hv. þm. sem hér talar, hvernig hann sér framtíðina fyrir sér. Ég held að þörfin á því að breyta til í búskap okkar jarðarbúa, í efnahagsmálum, í samhengi efnahagsmála og umhverfis, sé mjög brýn og fyrir enga jafnbrýn og þá sem eiga að erfa landið, erfa jörðina. Þegar talað er um yfirdrifna svartsýni þess sem hér talar um orkumál vildi ég leyfa mér, virðulegur forseti, að benda hv. þm. á að þær tölur sem ég er að reifa varðandi orkuþörf Íslendinga að 50 árum liðnum eru enginn heilaspuni þess sem hér talar. Þær eru enginn heilaspuni frá minni hálfu. Þetta eru útreikningar þeirra sem til þess hafa verið settir af opinberum aðilum á Íslandi og yfir þetta dæmi var ég að reyna að fara, þar á meðal líklegan vöxt orkunotkunar, væntanlega að teknu tilliti til einhverrar fjölgunar þjóðarinnar miðað við það markmið að Íslendingar verði sem mest sjálfum sér nógir á orkusviðinu og útrými jarðefnaeldsneyti og þeirri mengun sem því heyrir til og þá er niðurstaðan ósköp einföld. Þetta er dæmi sem hvert barn á að geta reiknað, að við höfum endanlegt magn orku til framleiðslu þótt auðvitað megi róa á ný svið bæði varðandi vindorku og fleira, og það hljóta menn að gera og þörfin verður þarna. Við megum ekki hugsa þetta dæmi út frá því, í hugsunarleysi, að tefla náttúru Íslands eins og hv. þm. er því miður að gera í sambandi við heimild til virkjunar í Bjarnarflagi svo dæmi sé tekið.

[12:45]