Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:49:30 (4533)

1999-03-09 15:49:30# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:49]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef satt að segja ekki kortlagningu yfir þessar tilfærslur manna milli flokka. Það getur verið að hv. þm. hafi það allt á hreinu og allt sé þar komið til réttar sem reikna má með. Þetta hefur hins vegar verið að breytast frá degi til dags og heldur að fjölga, a.m.k. í mínum þingflokki.

En hvað hvalastofnana og vistkerfið varðar þá sýnist mér ekki stór ágreiningur með okkur hv. þm.

Varðandi ályktunina 1983 þá er viðhorf mitt ekki það að menn hafi strikað yfir hvalveiðar til frambúðar. Það var tímabundið og hvorki tilbúningur minn eða túlkun í því efni. Þess vegna er óþarfi að berja sér á brjóst og segja: Hana nú, nú ætlum við að hafa allt á hreinu hér á Alþingi og lýsa þessa ályktun, sem var tímabundin, ógilda árið 1999.

Virðulegur forseti. Ég sé hins vegar að hv. þm. Tómas Ingi Olrich er hér kominn. Það er nú kannski erfitt fyrir mig að beina fyrirspurn til hans í beinu framhaldi þar sem hér standa yfir andsvör.