Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:19:16 (4606)

1999-03-09 23:19:16# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, HG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:19]

Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég var kvaddur í síma hér og missti af úrskurði hæstv. forseta um málið. Ég held að ég átti mig nú á því sem málið snýst um. Ég hef litið yfir þingskjölin. Ég verð að lýsa yfir undrun á málsmeðferðinni sem hér er viðhöfð af hv. samgn. Hún er í raun þannig að maður trúir ekki sínum eigin augum, að slíkt sé viðhaft hér á hv. Alþingi. Ég hlýt því að skora á hæstv. forseta að hlutast til um, að svo miklu leyti sem það getur verið í valdi hans, að þetta mál verði afturkallað og fari til nefndar til að fá eðlilega málsmeðferð. Mér finnst að það hljóti að þurfa að gera þá bragarbót eftir þessi ósköp. Þessi tillaga sem birtist hér sem breyting og er með vísun til þingmáls 356 um jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar hefur í raun ekkert með það þingmál að gera. Tillagan getur átt við hvaðeina, hvar sem er á landinu, og algerlega misskilin skilaboð að ætla að fella þetta undir þetta þingmál. Ég treysti hæstv. forseta til að hlutast til um að samgn. fái málið til athugunar á nýjan leik. Slík vinnubrögð eru fáheyrð. Ég átta mig ekki á því hvernig virðuleg þingnefnd, að ég hélt undir traustri forustu, getur lent í slíku foraði sem hér er um að ræða. Ég hlýt að lýsa vonbrigðum með að þetta skuli yfirleitt slæðast inn í þingsali eins og hér er. Vald þingnefnda á afgreiðslu mála er mikið en fyrr má nú vera, virðulegur forseti.