1999-03-10 00:44:51# 123. lþ. 82.17 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv. 48/1999, Frsm. minni hluta HG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[24:44]

Frsm. minni hluta iðnn. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Umræðu um þetta mál var frestað um hádegisbil og síðan mun það hafa verið nokkuð til umræðu milli þeirra sem stóðu að meirihlutaáliti í málinu, þ.e. stjórnarliðar í hv. nefnd og þingflokkur Samfylkingarinnar svonefndu, sem hefur komið að skoðun málsins frekar og veruleg fundahöld verið í gangi vegna þess. Ég fagna því að sú brýning sem ég hafði uppi um málið og stöðu þess og eðli virðist hafa hreyft aðeins við mönnum en hitt er annað mál að ég er ekki viss um að sú hugmynd að andlitslyftingu sem var kynnt varðandi málið og fyrirhugaðar brtt. við 3. umr. skipti sköpum í þessu máli. Það á bæði við um Bjarnarflag og alveg sérstaklega sem þessi hugmynd mun varða en einnig aðrar heimildir sem fulltrúar Samfylkingarinnar í iðnn. skrifuðu upp á með nefndaráliti.

[24:45]

Það kemur fyrir lítið ef þingið á að veita virkjunarheimild að hafa uppi óskir um að orkan verði notuð í vistvænu samhengi ef á sama tíma er ljóst af efni frv. að fyrirhugað er að nýta orkuna til tiltekinna stóriðjuframkvæmda.

Varðandi Bjarnarflagsvirkjun hefur staðan verið sú að lögin um Mývatn og Laxá ná þar yfir. Hugmyndin að baki virkjunarheimildinni, eins og fram kom í hv. iðnn., er að veikja stöðu þessarar löggjafar. Ég veit ekki hvort áminning um það í brtt. breytir miklu þar sem hugsunin á bak við, eins og hún var túlkuð fyrir iðnn., er að með því að hafa virkjunarheimild þá gefist kostur á að áfrýja niðurstöðum Náttúruverndar ríkisins til pólitískrar ákvörðunar æðra stjórnvalds.

Ég ætla ekki að skera úr um lögfræðina í þessu efni en vildi ítreka að þetta blundar á bak við málið og látið í þau áform skína. Þess vegna dugar að mínu mati ekkert annað en að fella þessa tillögu út úr frv., láta þann þátt ekki koma til atkvæða, ef fulltrúum Samfylkingarinnar er alvara í að breyta um skoðun frá því sem var fyrir 2. umr. málsins, þegar málið var tekið út úr hv. nefnd. Þeir ættu að draga álit sitt til baka og þar með stuðning við áform um virkjunarheimild í Bjarnarflagi. Heimildinni verður náttúrlega teflt fram til þess að koma málinu áfram, annars væru menn ekki að þessu.

Langskynsamlegast fyrir stjórnarmeirihlutann væri hins vegar að hverfa frá þeim fáránlegu áformum sem þarna eru uppi, um að veita virkjunarheimild fyrir jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi þegar gnótt er úrræða til að afla orku ef áhugi er á því á jarðhitasvæði við hliðina, Kröflusvæðinu. Það blasir náttúrlega við hverjum manni. Málið snýst um að virkjunaraðili er að reyna að helga sér hitt jarðhitasvæðið, þ.e. við Námafjall, til nýtingar.

Hingað barst sérkennilegt plagg og leiddi til fréttaflutnings í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Það var athugasemd frá Orkustofnun við frétt um virkjun í Bjarnarflagi. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn hafa tekið eftir því eða fengið það í hendur, þ.e. fréttatilkynningu frá Orkustofnun við frétt um virkjun í Bjarnarflagi. Tilefnið er að forstjóri Náttúruverndar ríkisins hafði leyft sér að lýsa sjónarmiðum í þessu máli. Hann fær hér í hausinn viðbrögð frá Orkustofnun í tíu tölusettum liðum. Ég hef satt að segja ekki séð öllu sérkennilegri málafylgju af ráðgjafarstofnun ríkisstjórnarinnar í orkumálum en að bregðast við með því að snupra forstjóra Náttúruverndar ríkisins með þessum hætti, bara ,,omgående``, eins og þeir segja á dönskunni, um hæl. Stofnunin sendir kveðju með túlkunum sínum, m.a. á því að valið á Kröflusvæðinu til virkjunar á sínum tíma hafi verið með það í huga að hlífa hinu svæðinu við nýtingu. Þessu er hafnað af ráðgjafarstofnun ríkisstjórnarinnar. Ég veit ekki hvort stofnunin hefur haft samband við hæstv. iðnrh. um málið. (Iðnrh.: Nei.) Ég skal ekkert um það segja Í öllu falli kemur þessi sending, dags. 9. mars 1999. Rétt er, virðulegur forseti, að rekja lítillega efni þessa plaggs. Ég held að það sé ástæða fyrir menn að gefa gaum að því. Ég skal lesa þetta bara til að rjúfa ekki neitt samhengi, þetta er nú ekki nema ein síða.

Yfirskriftin er Athugasemd frá Orkustofnun við frétt um virkjun í Bjarnarflagi og síðan segir, með leyfi forseta:

,,Í fréttatíma RÚV kl. 19 mánudaginn 8. mars var viðtal við dr. Árna Bragason forstjóra Náttúruverndar ríkisins varðandi virkjun í Bjarnarflagi. Þar komu fram fullyrðingar eins og ,,Menn eru hræddir um að ef farið verður í nýtingu á gufuafli í Bjarnarflagi, fullnýtingu, þá muni það hafa áhrif á virkni hveranna, Hveraröndina sem er austan við fjallið, Námafjallið, og menn eru hræddir um það verði þar breyting á hveravirkni og þessir hverir sem þar eru, eru vinsælasta og mest heimsótta hverasvæði á landinu.

Fjörutíu megavatta virkjun telst nálægt því að vera fullnýting á svæðinu að mati jarðfræðinga.``

Árni telur einnig að svo stór virkjun komi ekki til greina í Bjarnarflagi. Þá segir hann að setja verði skilyrði um að frárennsli renni ekki til Mývatns, og að byggingar, ef til kemur, falli að umhverfinu. Hann sagði að ákveðið hefði verið að virkja við Kröflu á sínum tíma til að hlífa Bjarnarflagi, en því virðist menn nú hafa gleymt.

Orkustofnun telur nauðsynlegt að gera athugasemdir við þessi ummæli forstjóra Náttúruverndar ríkisins og árétta nokkrar staðreyndir málsins:

1. Árið 1994 vann Orkustofnun að yfirliti um innlendar orkulindir til vinnslu raforku fyrir iðnaðarráðuneytið. Í því yfirliti kemur m.a. fram að líklega standi Námafjallssvæðið undir meiru en 70 megavatta raforkuvinnslu í 50 ár.

2. Námafjallssvæðið er það háhitasvæði á Íslandi sem á sér lengsta nýtingarsögu, fyrst með brennisteinsvinnslu`` --- ætli það sé ekki á dögum Skúla eða kannski öllu fyrr, á 18. öld --- ,,en frá 1967 hefur þar verið mikil gufuvinnsla til þurrkunar, raforkuframleiðslu og hitaveitu í Reykjahlíð.

3. Tólf holur hafa verið boraðar í Bjarnarflagi á árunum 1963--1980 niður á allt að 2.000 m dýpi til gufuöflunar.

4. Vinnslusaga svæðisins spannar nú 35 ár og er massatakan úr jörðu nálægt því að vera 50 milljónir tonna á þessu tímabili. Þessi vinnsla hefur haft lítil áhrif á þrýsting í jarðhitakerfinu, sem sýnir að svæðið er fjarri því að vera fullnýtt.

5. Fullyrðing þess efnis að 40 megavatta raforkuvinnsla teljist vera fullnýting á svæðinu er beinlínis röng. Árni vísar þarna til einhverra ónafngreindra jarðfræðinga í þessu sambandi, sem augljóslega hafa ekki kynnt sér málið.

6. Fjórar grunnar holur voru boraðar í Hveraröndina á árunum 1951--1954. Þessar holur hafa nú breyst í hveri sem eru m.a. það aðdráttarafl fyrir ferðamenn, sem Árni vísar til. Það er því ekki eingöngu um náttúrulegan jarðhita að ræða í Hverarönd.

7. Ef umtalsverð þrýstingslækkun yrði í jarðhitakerfinu vegna aukinnar vinnslu í Bjarnarflagi mundi það að öllum líkindum auka hveravirkni á yfirborði. Það er að minnsta kosti sú reynsla sem menn þekkja á öðrum háhitasvæðum eins og í Svartsengi og Kröflu.

8. Í hönnunarforsendum Bjarnarflagsvirkjunar er gert ráð fyrir að dæla vatninu um borholur niður í jarðhitageyminn eftir notkun, þ.e. streymi til Mývatns mun ekki raskast. Hins vegar er vert að minna á að náttúrulegt streymi frá háhitasvæðunum í nágrenni Mývatns út í vatnið er á bilinu 5--10 m3 á sekúndu. Það er m.a. ástæðan fyrir heppilegum vaxtarskilyrðum fyrir kísilþörunga í vatninu, en þeir skipta miklu máli í lífríki Mývatns.

9. Krafla var valin fram yfir Bjarnarflag á sínum tíma af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var Kröflusvæðið talið vera a.m.k. 10 sinnum stærra og í öðru lagi var það fjarri alfaraleið. Hins vegar verður virkjun aldrei lengi fjarri alfaraleið sökum þess að vegir að virkjunarstað þurfa að vera góðir og eru venjulega ekki lokaðir ferðamönnum, enda er Kröfluvirkjun og svæðið þar í kring einn af vinsælustu ferðamannastöðum landsins.

10. Orkustofnun og þar á undan Raforkumálaskrifstofan hafa stundað jarðhitarannsóknir og þjónustað jarðhitaiðnaðinn í meira en hálfa öld. Orkustofnun leggur metnað sinn í að ráðgjöf um vinnslu jarðhita sé með þeim hætti að vinnslan sé í sátt við umhverfið. Ráðgjöf stofnunarinnar um virkjun í Bjarnarflagi er í fullu samræmi við þá stefnu.``

Undir þetta rita Ólafur G. Flóvenz, framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Orkustofnunar, og Ásgrímur Guðmundsson verkefnisstjóri.

Virðulegur forseti. Um þessa athugasemd frá Orkustofnun má segja margt og fleira en ég hef sagt nú þegar. Það sem er sérstaklega umhugsunarvert í sambandi við þetta mál er að það skuli koma fram á þessum tíma og vera sett svona fram, sem snuprur við forstjóra Náttúruverndar ríkisins. Athugasemdum þessum er teflt beint inn í umræðu um málið á Alþingi og þær settar fram í þeim húsbóndastíl sem ég hélt að hugmyndin væri að leggja af í samskiptum þeirra sem væru a.m.k. álengdar sem ráðgjafar í orkumálum og hins vegar í umhverfisvernd. Hér er hins vegar eitthvað allt annað uppi.

Með því orðalagi sem er á athugasemdinni er gefið til kynna að hér séu þeir sem vitið hafa. Hér eru þeir sem vitið hafa og eru bærir um að veita ráðgjöf og kveða upp úrskurði. Það kemur auðvitað eitt og annað fram hér í staðreyndaupptalningu sem ég geri ekki athugasemdir við. Ég reikna með að rétt sé með það farið. Með önnur atriði er hins vegar ekki er rétt farið. Teflt er fram staðhæfingum, beint inn í þetta viðkvæma álitamál sem hér er til umræðu, m.a. fullyrðingum um að önnur sjónarmið hafi ráðið vali virkjunar á Kröflusvæðinu en þau að hlífa Námaskarðssvæðinu, svæðinu við Námafjall.

[25:00]

Það getur verið að af hálfu Orkustofnunar liggi málið þannig. Ég veit ekki hvað þessir ágætu menn sem skrifa undir þetta bréf hafa kafað ofan í söguleg atriði, m.a. fundargerðir Náttúruverndarráðs frá þeim tíma þegar ráðið fjallaði um og veitti samkvæmt beiðni, auðvitað eftir mikinn ýting, leyfi fyrir virkjun á Kröflusvæðinu 1975, þann 26. mars, ef ég man rétt. Það vill svo til að sá hinn sami og hér talar sat í Náttúruverndarráði á þessum tíma og fjallaði um þetta mikla álitamál og telur sig alveg vita um forsendurnar fyrir þessari leyfisveitingu og hvað lá að baki af hálfu Náttúruverndarráðs á þeim tíma. Það var það sjónarmið að þótt Kröflusvæðið væri verðmætt þá skyldi valið fyrir virkjun falla á það svæði vegna nálægðar háhitasvæðisins við Námafjall við Mývatn og við alfaraleið. Ótti við mengun frá affallsvatni var á þeim tíma m.a. mikið til umræðu og verulegar rannsóknir fóru fram á því, m.a. hættunni af affallsvatni frá Kröfluvirkjun.

Síðan koma menn hér með innlegg af þessu tagi og ætla sér bara að toga talsmenn náttúruverndar, opinbera starfsmenn, upp á hárinu og segja: ,,Herrar mínar, svona var þetta nú.``

Þetta er ekki það innlegg í málið sem líklegt er til þess að skapa trúnað á milli aðila. Að vísu er hér ekki um Orkustofnun að ræða heldur Landsvirkjun. Orkustofnun hleypur undir bagga með Landsvirkjum eins og hér blasir við. En Landsvirkjun er að reyna að komast yfir þetta svæði til nýtingar.

Við skulum þá aðeins koma að spurningunni um fullnýtingu sem hér er einnig fjallað um. Ein athugasemdin sem gerð er við mál forstjóra Náttúruverndar ríkisins er sú að hann fari ekki með rétt mál að því er varðar fullnýtingu svæðisins. Það vill nú svo til að í nál. minni hluta iðnn. er að finna greinargerð frá Landsvirkjun og sérfræðingum hennar um mat á jarðhita á Námafjallssvæðinu. Það er út af fyrir sig rétt að þar er jarðhitinn metinn nálægt 100 megavöttum, þ.e. afl svæðisins, ef ég man rétt. Þetta er greinargerð Landsvirkjunar um virkjun jarðvarma í Bjarnarflagi og Kröflu. 01. mars 1999. Það er best að hafa þetta rétt.

Það er álitið að jarðhitasvæðið við Bjarnarflag geti staðið undir tæplega 100 megavatta raforkuframleiðslu í 50 ár.

Það er út af fyrir sig rétt að 40 megavött eru ekki fullnýting, ef þessar tölur standast. En í gögnum Landsvirkjunar sem send eru iðnn. og í gögnum frá fyrri árum sem fjallað var um, ef ég man rétt, af Náttúruverndarráði 1996 og stjórn rannsóknarstöðvarinnar við Mývatn á sama ári, koma fram hugmyndir um aðra virkjun til viðbótar til að fullnýta þetta svæði væntanlega, aðra eins virkjun til viðbótar. Það eru því á dagskrá hugmyndir um fullnýtingu Námafjallssvæðisins til gufuaflsvinnslu.

Ég segi bara í sambandi við þetta mál: Þeir sem ætla að standa að afgreiðslu virkjunarheimildar í Bjarnarflagi með frekari hugmyndir á bak við um aðra eins virkjun þar að ættu að endurskoða sinn gang, ekki síst ef mönnum er nokkuð í mun að leita sátta í sambandi við verndun náttúruverðmæta. Þeir sem fyrir orkumálum ráða ættu að sýna tillitssemi og ætla mönnum a.m.k. eðlilegt svigrúm til þess að reyna að ná einhverju samkomulagi, en ekki ganga fram með þeirri einsýni og ofstopa sem einkennir þetta mál og þessa málafylgju meiri hluta iðnn. eins og hún kemur fram í þessu máli.

Er það virkilega svo að Samfylkingin ætli að láta stinga upp í sig með einhverri hugmynd um það að taka inn ákvæði um lögin við Mývatn og Laxá sem lesa má um í lagasafni? Hverju ætla menn að breyta?

Ætla menn ekki að reyna að bindast samtökum um að ýta þessum kaleik frá, a.m.k. í bili þannig að menn taki ekki skyndilega inn á Alþingi Íslendinga, afgreiði og stimpli erindi sem kemur til iðnn. 18. febr. sl., ætli sér að afgreiða það hér og veita heimild til virkjunar?

Ég vara við þeim kattarþvotti sem hér stendur til að hafa uppi í tengslum við málið. Mér þykir satt að segja hörmulegt til þess að vita hvernig að þessu máli er staðið og hvernig inn í þetta er komið af ráðgjafarstofnun ríkisstjórnarinnar í orkumálum og þeirri óbilgirni sem þar er uppi höfð. Ég verð að lýsa yfir miklum áhyggjum með þessa málafylgju alla. Ég held að menn verði í ljósi þess sem hér er að gerast að taka mikinn vara á þeim orðum sem höfð eru uppi af valdhöfum í landinu um að þeir ætli að stefna á sættir milli nýtingarsjónarmiða og umhverfissjónarmiða þegar svona er haldið á málum sem varða eitt allra verðmætasta en um leið viðkvæmasta svæði á Íslandi í þessu samhengi, þ.e. Mývatnssveit.