Hvalveiðar

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 11:01:07 (4660)

1999-03-10 11:01:07# 123. lþ. 83.5 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[11:01]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Eins og þetta mál er lagt fyrir Alþingi er það að mínu mati í raun ekki tækt til afgreiðslu. Hér er verið að leggja til að hefja hvalveiðar við Ísland hið fyrsta án nokkurra frekari skilgreininga hvað að baki liggur.

Á það hefur verið bent að stór munur er á því hvort menn taka einstök dýr, kannski í rannsóknarskyni af hrefnustofni, eða hvort menn eru að fara í stórhvalaveiðar. Ég tel að það væri glapræði að fara í slíkar veiðar eins og mál standa og án þess að frekari greining á málinu liggi fyrir. Ég tek undir 2. mgr. tillögunnar og styð það að Alþingi leggi áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands til þess að taka lífverur úr sjónum hvort sem það eru fiskar eða hvalir. En að álykta um að hefja hvalveiðar hið fyrsta á þeim forsendum sem hér liggja fyrir er fráleitt með öllu. Ég greiði atkvæði gegn 1. og 3. mgr. þessarar tillögu og gegn tillögunni í heild sinni.

Þetta vil ég að liggi fyrir, virðulegur forseti. Að öðru leyti hef ég skýrt mitt mál í umræðu. Ég tel t.d. að tilvísun til samþykktar 1983 hafi ekkert að gera inn í þessa ályktun hvernig sem á málið er litið.