Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:29:12 (4689)

1999-03-10 12:29:12# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:29]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. fyrir eindreginn stuðning við þær hugmyndir sem liggja í upphaflegri þáltill. Ég met mikils að sá stuðningur kemur fram frá formanni nýs þingflokks Samfylkingarinnar. Hér veldur mjög miklu hvernig á málum verður tekið á grundvelli þeirrar samþykktar sem hér er lögð til og að sá ráðherra sem sest í stól umhvrh. eftir kosningar fylgi því máli fast eftir. Ég er alveg sannfærður um að það er fullt lag til þess að útfæra þetta mál í heild sinni, m.a. vegna þeirrar vinnu sem hefur farið fram um skipulag miðhálendisins nú þegar vegna þess að að minni hyggju eru engin sjáanleg stór árekstrarefni við þær hugmyndir sem settar eru fram í þáltill. um þjóðgarðana, um jöklana og nágrenni þeirra eins og mörk eru þar dregin, vissulega lauslega, en þó út frá ákveðnum kennileitum því að þetta liggur uppdregið á landabréfi af minni hálfu á undirbúningsstigi.

Jafnframt legg ég ríka áherslu á að það þarf verulega lagni til að koma slíkum málum í höfn vegna þess að við komumst ekki lengra en stuðning er að fá við hjá þeim sem telja sig hafa rétt inn á viðkomandi svæði, hvort sem það er ríkið eða einkaaðilar og á það legg ég mjög mikla áherslu. Við þurfum að vanda vinnubrögðin í þeim efnum, við þurfum að fá fólkið um allt land með okkur í þessa vinnu. Þá er ég alveg sannfærður um að við náum þeim markmiðum sem við hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir erum örugglega sammála um varðandi verndarstefnu að því er snertir miðhálendið og auðvitað fleira.