Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 15:37:07 (4710)

1999-03-10 15:37:07# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[15:37]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það nál. sem hér var mælt fyrir kemur fram með hugmynd sem ég vil út af fyrir sig ekkert vísa frá sem athugunarefni. En það sem ég tel vera veikleikann í þeirri tillögu, því nál. sem hér liggur fyrir, er að hún tengist tæplega stöðu mála og veruleikanum eins og hann blasir við okkur nú og setur mál í mikla óvissu varðandi framhaldsmálsmeðferð, miðað við afgreiðslu mála, m.a. síðasta vor.

Ég spyr hv. talsmann minni hlutans hvort hann telji að betra sé að skilja málið eftir án þess að til sé samvinnunefnd um svæðisskipulag sem taki á málum og reyni að gæta heildstæðra sjónarmiða eins og gert er ráð fyrir í frumvarpsgreininni, frekar en að skilja málið eftir opið, eins og yrði ef þetta yrði afgreiðsla mála.

Ég tel í öðru lagi --- það er mitt stöðumat út frá verndarsjónarmiðum --- að betra sé að þessi mál séu í höndum sveitarfélaga að vissu marki, jafnvel þótt fámenn séu, heldur en að inn í það komi fulltrúar ráðuneyta þess ríkisvalds sem nú fer með völdin á Íslandi með orkuhagsmunina fremsta í flokki, fremst á sínum lista til að skapa þeim styrkari stöðu, en það kæmi að mínu mati út úr því ef við færum að setja á fót svona skipulagsform, þ.e. umhverfis- og auðlindaskipulag á stjórnsýslustigi ríkis og unnið af stofnunum þess í samvinnu við einstök fagráðuneyti og væru sveitarfélög bundin af því.

Ég er ekki að hafna því sjónarmiði að ekki geti verið gilt að líta á málin heildstætt. En það er mitt stöðumat að verndarhagsmunirnir stæðu mun veikari fæti en blasir við að þeir gerðu í því svæðisskipulagi sem nú liggur fyrir og þeim tillögum, ef þetta væri sett í hendur ríkisvalds, sem því miður er harla skammsýnt í sinni nálgun að miðhálendinu.