Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 16:19:22 (4717)

1999-03-10 16:19:22# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[16:19]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. ágæta ræðu. Ég get tekið undir allt sem sagt var um að margt má finna að því hvernig ríkisstjórnin lagði mál hér fyrir þingið seint og um síðir og að við skulum standa hér og ræða þetta mál á síðasta þingdegi væntanlegum. Það er ekki í lagi og ekki eins og við vildum hafa það. Ég er alveg reiðubúinn til að ræða þessi mál opið út frá því að við séum nánast á byrjunarreit og gætum farið að feta alveg nýja slóð. Það er um að gera að skoða málin líka frá því sjónarhorni. En það leysir okkur þó ekki undan því að við verðum að tengja við það sem gert hefur verið, þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þó að sú ábending sem felst í áliti minni hlutans um auðlinda- og verndarskipulag fyrir landið allt, þar á meðal miðhálendið, sé umhugsunarefni, þá vara ég við því að menn gefi sér að þetta sé betur komið í höndum fulltrúa ráðuneyta á kontórunum í Reykjavík og með blessun Alþingis í formi þáltill. heldur í gegnum það kerfi sem þrátt fyrir allt hefur skilað okkur þeirri tillögu sem fyrir liggur um svæðisskipulag miðhálendisins og sem hægt er að þróa undir þeim verndarvæng sem verið er að reyna að skapa hér með miklu víðari þátttöku en fyrirhuguð var af ríkisstjórninni í fyrra. Þrátt fyrir allt er í þeirri tillögu sem hér er fram komin gert ráð fyrir því að þar komi inn fulltrúar frá þéttbýlissvæðum sem ekki áttu neina aðild að þessu í fyrra. Loforð um að þarna yrði tryggð ákveðin heildarsýn og þarna kæmu fulltrúar þéttbýlis að var forsenda þess að undir það var tekið af hálfu fulltrúa Alþb. og óháðra á þeim tíma, að standa að málum. Það er í raun verið að verða við þeirri kröfu með því að þetta mál er hér komið inn í þingið.

Virðulegur forseti. Ég er ekki í neinum vafa um að við stöndum mun skár --- ég segi skár af því ég er ekki ánægður --- að vígi með þá stefnumótun sem fyrir liggur í skipulagsmálum miðhálendisins heldur en ef sú leið hefði verið þrædd sem hér er verið að vísa til og þingflokkur jafnaðarmanna gerði reyndar tillögu um í fyrravor, þ.e. brtt. við þáv. skipulagslög. Þetta er sjónarmið. En ég er reiðubúinn að skoða þessi mál alveg opið með tilliti til framtíðar og met framlag þingmannsins og hugmyndir fyllilega þar að lútandi.