Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 16:24:30 (4719)

1999-03-10 16:24:30# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[16:24]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða ákveðinn kjarna máls og það er alveg ljóst að við höfum misjafna sýn á málið út frá skipulagsforsendum. Ég veit ekki hvort hv. þm. gengur út frá reynslu sinni hér á höfuðborgarsvæðinu í þessum málum. En ég tel að málið liggi nú þannig: Við höfum tillögu að svæðisskipulagi sem líkur eru á að staðfest verði af ráðherra. Ég vil a.m.k. ætla það miðað við það sem hefur verið rætt. Það gefur ákveðinn grunn og skapar meginramma um þróun sem er settur yfir aðalskipulag og síðan deiliskipulag sem er þó aukaatriði í þessu sambandi. En hann er settur fyrir aðalskipulag a.m.k. þannig að þeir sem eiga að halda utan um rammann, utan um svæðisskipulagið, hafa fullt íhlutunarvald varðandi aðalskipulag og verða að gæta þess að það þróist ekki á misvíxl á miðhálendinu innan þeirrar línu sem verið er að draga.

Þetta er auðvitað stór ávinningur, mjög stór ávinningur. Ég fullyrði að það sjónarmið að ríkisvaldið eigi að koma að þessu máli og leggja línurnar hefði skilað okkur allt annarri og lakari niðurstöðu út frá verndarforsendum en það skipulag sem við stöndum með í höndunum í dag. Og það hefur sannarlega ráðið miklu í mati mínu á þessum málum. Út frá fræðilegum og faglegum forsendum má segja, eins og hér var verið að vitna til, að menn eigi að byrja á öðrum enda o.s.frv. Gott og vel. Það gerðu menn ekki. Það tekur langan tíma ef ætti að gera það og byrja á þessari vinnu, þessari fræðilegu vinnu, fimm ár kannski. Hvað gerist á meðan? Hver er staðan? spyr ég. Ég veit að sumir þeirra ágætu fræðinga sem þrýsta á um þessi vinnubrögð vilja sjá hálendið undirlagt af mannvirkjum, vegum og orkuverum, upphleyptum stórum vegum til þungaflutninga og orkuverum. Ég þekki þessa menn. Ég hef hlustað mikið á þá. Ég er þeim ekki sammála um þessar forsendur. Hluti af gagnrýninni kemur frá þessum aðilum og frá orkuiðnaðinum. Ég er ekki í liði með orkuiðnaðinum í þessum hugmyndum um meðferð miðhálendisins.