1999-03-11 01:20:59# 123. lþ. 84.27 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[25:20]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir útlistun og að rekja skilning sinn á málinu og lýsa inn í samhengi laganna við þær brtt. sem hér liggja fyrir. Ég get sagt það að mér létti við að heyra þá frásögn hæstv. ráðherra vegna þess að mér þótti nokkuð skorta á fyrr í umræðunni að þetta lægi fyrir á þann hátt sem mér sýnist eðlilegt að lesa í málið og tel að ekki ætti að vera óvissa um túlkun í ljósi þess sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra í umræðunni.

Staða þessa svæðisskipulags er ótvírætt allsterk og hún er sérstök. Hún er ekki sambærileg við svæðisskipulag utan markalínu og það er verulegur kostur og lýtur að því markmiði að reyna að halda þannig á skipulagsmálum miðhálendis að heildstæðra sjónarmiða sé gætt, þó svo að margir aðilar komi að einstökum þáttum á aðalskipulagsstigi og deiliskipulags.

Ég vona að sá gjörningur sem hér er verið að lögleiða verði til heilla. Það er eins og hæstv. ráðherra sagði að þessi tillaga sem nú liggur fyrir og verður væntanlega staðfest fljótlega getur orðið til endurmats hjá þeirri nefnd sem verður til á grundvelli þess frv. sem hér liggur fyrir.