1999-03-11 02:04:05# 123. lþ. 84.28 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., Frsm. 2. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[26:04]

Frsm. 2. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eiginlega ekki annað hægt en að fagna því að rödd skuli koma af bekkjum stuðningsliðs ríkisstjórnarinnar, stuðningur við þessa tillögu. Það er ánægjuefni og ég er viss um að það er auðvitað skilningur hjá mörgum fleiri þingmönnum þótt stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar séu á tvísýnni vegferð í sambandi við þetta mál.

Ég held að það hefði þurft að fara fram miklu opnari og víðtækari umræða um málið á Alþingi áður en ríkisstjórnin tók ákvörðun sína í málinu. Það var kannski eitt það dapurlegsta við þetta að hæstv. ríkisstjórn skyldi ekki leita eftir einhverju og þá a.m.k. lögboðnu samráði við utanrmn. um þetta efni.

Það er fleira sem ber að harma í sambandi við málafylgjuna eins og það að umhvn. þingsins fékk enga skilagrein frá síðasta ársfundi samningsaðila, þ.e. Buenos Aires þinginu. Nefndin hafði því ekki fyrir sér nein gögn til umræðu og mats á þessu máli áður en tillagan gekk til þessarar afgreiðslu sem vísar beint í ágreining í þinginu.

En söm er gerðin góð af hálfu þess þingmanns sem hér talaði að taka efnislega á málinu og túlka þá skoðun hér þótt liðið sé nokkuð á nóttina.