1999-03-11 03:44:14# 123. lþ. 84.30 fundur 526. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (gjaldskrá sveitarfélaga) frv. 59/1999, Frsm. minni hluta HG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[27:44]

Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Menn eru nú kannski farnir að sljóvgast aðeins í ritúalinu. En ég sé ekki að hv. formaður nefndarinnar hafi úr öðru að spila en að vísa til lögfræðinga sem beri ábyrgð á hugverkinu, þ.e. þessari breytingu sem lögð er til og vil ég leyfa mér að vekja athygli á því hvað hér er á ferðinni.

Nú er það verkefni heilbrigðisnefnda, fyrir utan að líta til með málum sveitarfélaganna, öðru fremur að fylgjast með atvinnurekstri. En er það góð stjórnsýsla, bara út frá almennu formi að ætla þeim eftirlit? Ég hef ekki á móti því að þeir fái að fylgjast með og geti gert grein fyrir sjónarmiðum sínum og þurfa ekki einu sinni áheyrnaraðild að nefnd til að geta gert það --- en að þeir verði fullgildir aðilar að eftirlitsnefnd, eins og hér er verið að lögbjóða og breyta nýlega settri löggjöf um hollustuhætti á þennan hátt, finnst mér allt of langt gengið og hljóti að brjóta gegn góðum stjórnsýsluhefðum. Ég vil ekki fara að kalla sérstaklega eftir Evrópuréttinum yfir okkur í þessu máli en ekki er ólíklegt að hann komi þarna eitthvað við sögu vegna þess að þar er jú kveðið á um marga hluti. Ef til vill veit hæstv. ráðherra hvort það hefur verið til athugunar með öðru.