1999-03-11 04:01:51# 123. lþ. 84.32 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[28:01]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Eitt það sérkennilegasta við málið eru hinar nýju upplýsingar formanns samgn., að nefndin hefði trúlega klofnað ef hún hefði viðhaft eðlileg vinnubrögð. Ég þakka mínum sæla fyrir að hafa ekki verið kosinn í þessa nefnd. Ég hef einu sinni verið í samgn., eitt kjörtímabil held ég, svona langleiðina, og var þá formaður nefndarinnar. Ég átti þar gott samstarf en aldrei bar neitt viðlíka á góma þar. Ég held að þetta jaðri í rauninni við einsdæmi þó ég hafi ekki gert könnun á því.

Ég er mjög undrandi á hv. þm., eins og hv. formanni samgn., að búa svo um hnútana. Ég hef satt að segja ekki trú á því að ekki hefði mátt halda nefndinni saman um aðra uppsetningu á málinu. Um það sýnist mér þetta fyrst og fremst snúast og tæplega hægt að átta sig á hvaða efnisþættir hefðu orðið til að kljúfa nefndina ef eðlilega hefði verið farið með málið.

Fyrir þinginu lá tillaga sem var tekin og nánast því endurrituð og flutt sem tillaga nefndarinnar. Þar birtist ný stefna sem á ekkert skylt við heiti þeirrar tillögu sem málið var afgreitt undir.