Náttúruvernd

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 11:47:01 (4926)

1999-03-11 11:47:01# 123. lþ. 85.19 fundur 528. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 44/1999, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 123. lþ.

[11:47]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Afgreiðsla þessa máls var á mjög tæpu vaði. Frv. kom mjög seint fram, tíminn til að vinna málið var naumur en þó tókst um það samstaða í umhvn. að leggja það fram til afgreiðslu. Við hefðum þurft rýmri tíma. Það er ekki sérlega þakkarvert að hér komi fram endurskoðuð löggjöf um náttúruvernd. Það er lögboðið og raunar komið fram yfir lögboðinn frest sem voru lok síðasta árs. Hér er því brugðist við lagaskyldu úr lögum um náttúruvernd frá 1996.

Margir þættir eru færðir til bóta í þessu frv. Með afgreiðslu þess eru m.a. tekin inn ákvæði um landslagsvernd, efnisnám og innflutning plantna en frumvörp um það hafa legið fyrir frá þeim sem hér talar og fleirum ár eftir ár í þinginu. Þessu ber að fagna og væntanlegri samþykkt þessa frv. þar sem ég undirrita nefndarálitið með fyrirvara og vil að það komi fram.